Bjarni Halldór Þórarinsson fæddist á Húsatóftum í Garði 9. maí 1928. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja laugardaginn 7. apríl 2012.

Útför Bjarna fór fram frá Grindavíkurkirkju þriðjudaginn 17. apríl 2012.

Elsku Bjarni afi.

Núna er kveðjustundin runnin upp. Aðstæður haga því svo að ég er nánast stödd hinum megin á hnettinum í litlu landi sem heitir Laos. Hér er gott að vera þrátt fyrir að ég hafi átt erfitt með að njóta síðustu daga, þ.e. frá því að ský bar fyrir sólu og mér bárust fréttirnar að þú værir stiginn upp í hendur hæsta höfuðsmiðs. Það tekur mig sárt að hafa ekki getað verið viðstödd í faðmi fjölskyldunnar og kvatt þig eins og vera ber.

Margar góðar minningar tengjast þér, elsku afi. Mér fannst alltaf skemmtilegt að sjá þig standa upp frá hádegismatnum og leggjast í sófann með neftóbakið þitt og melta yfir Grönnum. Þótt þú hafir tekið þinn tíma í sófanum má segja að það hafi varla verið til virkari maður. Það var ósjaldan sem þú dróst okkur systurnar með í kartöflugarðinn og niður á bryggju. Á hjólinu varstu svo ansi sprækur. Tókst þig vel út í hverju sem þú tókst þér fyrir hendur.

Ég montaði mig oft af því að eiga afa sem gæti farið í splitt og tekið eldspýtustokk upp af gólfinu með munninum. Eitthvað sem ég hef ekki enn haft kjarkinn í að prófa.

Elsku afi minn, þú varst svo sannarlega góður og hjartahlýr maður. Ég veit að það verður tekið vel á móti þér. Ég geymi ljúfar minningar um þig í hjartanu. Ég kveð þig með djúpum söknuði og þakka þér fyrir allar dýrmætu samverustundirnar. Ástar- og saknaðarkveðjur. Megi allar góðar vættir styðja og styrkja alla eftirlifandi ástvini.

Tinna Karen.