Baldur Arnarson baldura@mbl.is „Fyrst og fremst er þetta viðurkenning á því að Kínverjarnir ætli að byggja upp frekari starfsemi á Grundartanga.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Fyrst og fremst er þetta viðurkenning á því að Kínverjarnir ætli að byggja upp frekari starfsemi á Grundartanga. Á tímabili var óvissa um framtíð járnblendisins og hvort starfsemin yrði byggð upp á Grundartanga eða annars staðar. Þeirri óvissu hefur verið eytt,“ segir Guðbjartur Hannesson, starfandi iðnaðarráðherra, í tilefni af viljayfirlýsingu iðnrisans China Blue Star.

Yfirlýsingin varðar áform um 65.000 tonna kísilmálmvinnslu á Grundartanga og fullvinnslu á 12.000 tonnum af hreinkísil. Kemur til greina að framleiða sólarrafhlöður úr hreinkísil á Grundartanga.

Fjármögnun er tryggð

Spurður hversu langt verkefnið sé komið svarar Guðbjartur því til að það sé á byrjunarreit en að ljóst sé að með aðkomu Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, að yfirlýsingunni í gær sé mikil alvara að baki.

„Það kom fram að fjármögnun er tryggð þegar af framkvæmdum verður með lánsfé frá Kína.“

Kínversk stjórnvöld myndu hafa beina aðkomu að framkvæmdunum en móðurfélag Elkem á Íslandi er í 100% eigu China Blue Star sem er aftur í 80% eigu Chem China, efnarisa í eigu kínverska ríkisins.

Einar Þorsteinsson, forstjóri Elkem á Íslandi, segir framkvæmdirnar ekki þurfa að fara í umhverfismat. Þær muni skapa tugi starfa í framtíðinni.

Tengist vogunarsjóði
» Árið 2008 keypti bandaríski fjárfestingarbankinn og vogunarsjóðurinn Blackstone Group 20% hlut í China Blue Star.
» Kaupverðið var 76 milljarðar kr. og var samanlegt verðmæti bréfa China Blue Star því áætlað um 380 milljarðar á núvirði.