Einar K. Guðfinnsson
Einar K. Guðfinnsson
„Hér er það að gerast að forsætisráðherra, sem mælti fyrir þingsályktunartillögu um breytingar á stjórnarráði Íslands, lýsir því yfir að það þingmál sem hún er að flytja og er ríkisstjórnarmál sé í andstöðu við stjórnarskrá landsins.

„Hér er það að gerast að forsætisráðherra, sem mælti fyrir þingsályktunartillögu um breytingar á stjórnarráði Íslands, lýsir því yfir að það þingmál sem hún er að flytja og er ríkisstjórnarmál sé í andstöðu við stjórnarskrá landsins. Það eru að mínu viti mikil og grafalvarleg tíðindi sem ráðherrann færir þarna fram, óháð því hvort hún hefur á réttu eða röngu að standa um hvort þetta stangist á við stjórnarskrána. Það er ekki kjarni málsins í þessu samhengi,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í tilefni af þeim ummælum Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á Alþingi sl. miðvikudag að „fyrirhugaðar breytingar á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands... [séu] í raun í andstöðu við stjórnarskrána“.

Gengur gegn eiðstafnum

„Kjarni málsins er að ráðherrann er að flytja mál í nafni ríkisstjórnarinnar sem er að hennar mati brot á stjórnarskrá. Þetta er ekki síst alvarlegt af þeim sökum að um leið og alþingismenn taka sæti á Alþingi rita þeir eiðstaf að því að virða ákvæði stjórnarskrárinnar,“ segir Einar sem telur að forseti Alþingis hljóti að bregðast við ummælunum. Málið hafi ekki verið þingtækt.