Þóra Arnórsdóttir
Þóra Arnórsdóttir
Eftir Þóru Arnórsdóttur: "Forsetinn á að vera reiðubúinn að standa með þjóð sinni og tryggja að leikreglur lýðræðisins séu virtar."

Nú eru rétt um tíu vikur þar til íslenska þjóðin velur sér forseta til næstu fjögurra ára. Ég lýsti því yfir 4. apríl síðastliðinn að ég hygðist sækjast eftir kjöri í embættið.

Það er mín skoðun að við stöndum á tímamótum. Í haust verða fjögur ár frá því að þáverandi forsætisráðherra bað Guð að blessa þjóðina. Þá var ljóst að stærstu fjármálastofnanir landsins voru gjaldþrota eða á barmi þess og miklir óvissutímar framundan. Síðan höfum við reynt að skýra og skilja hvernig og hvers vegna þetta gerðist og komast að því hverjir beri ábyrgð á því.

Stöðugar fréttir af því sem gerðist bak við tjöldin í aðdragandanum sem og uppgjörið sjálft hafa vakið reiði sem kraumar í þjóðarsálinni. En stöðug og langvarandi reiði er lýjandi og niðurbrjótandi. Mitt í þessu virðist hafa gleymst hvaða möguleikar felast í uppbyggingunni sem fylgir óhjákvæmilega í kjölfar fallsins. Þar höfum við tækifæri til að laga það sem aflaga fór og leggja nýjar áherslur. Það verður að slá nýjan tón í þá samfélagsumræðu, horfa fram á við, ekki bara í baksýnisspegilinn. Ræða um það í hreinskilni og málefnalega hvernig samfélagi við viljum lifa í og móta fyrir næstu kynslóðir. Mikilvægasta verkefni okkar núna er að skapa sátt og horfa til framtíðar.

Sundurlyndið seytlar niður

Vegna þess að nú hefur 26. grein stjórnarskrárinnar verið beitt þrisvar, er umræðan um hana hávær í aðdraganda kosninga. Ég hef sagt að komi til þess að henni þurfi að beita, muni ég ekki hika við það. Þær aðstæður skapast hins vegar einungis þegar Alþingi er greinilega á annarri leið en meirihluti þjóðarinnar.

Því miður hafa vinnubrögðin á Alþingi ekki einkennst af miklum vilja til sáttar og samkomulags. Það gildir ekki bara um það þing sem nú situr, heldur hefur þetta verið regla fremur en undantekning um langt árabil. Það er von mín og ósk að ráðamenn þjóðarinnar beri í nánustu framtíð gæfu til þess að tileinka sér bæði orðræðu og vinnubrögð sem byggist á víðtækara samkomulagi en sem nemur rétt rúmum meirihluta. Samkvæmt könnunum nýtur Alþingi trausts 10% landsmanna. Fyrir ríki sem státar af því að eiga elsta starfandi þing í heimi þá er það ekki viðunandi. Sundurlyndið og átökin hafa einnig áhrif út í samfélagið, þar sem þykir orðið sjálfsagt að tala og rita af mikilli óvirðingu um eina mikilvægustu stoð samfélagsins.

Með þessu er ekki átt við að það eigi að sópa öllum ágreiningi til hliðar og fulltrúar ólíkra flokka á Alþingi geti ekki tekist á um málefni. Öðru nær. Það skiptir hins vegar miklu hvernig það er gert og hvort þeir vilji raunverulega ná sátt um stór og mikil deiluefni sem líkleg eru til að kljúfa þjóðina. Lýðræði er ferli siðmenntaðra og frjálsra þjóða til að ná sameiginlegri niðurstöðu í ágreiningsmálum. Ekki er boðlegt til lengdar að stór og mikilvæg mál séu knúin í gegnum þingið með minnsta mögulega meirihluta eins og hér hefur verið lenska um árabil. Forsetinn á að vera reiðubúinn að standa með þjóð sinni og tryggja að leikreglur lýðræðisins séu virtar. Til þess þarf hann bæði að beita áhrifavaldi sínu en líka að vera reiðubúinn að beita synjunarvaldinu ef þarf. Vonandi getur slík heitstrenging orðið til þess að þjappa þingheimi saman svo ríkjandi meirihluti velji frekar leið samstöðu en sundrungar. Takist það, er ólíklegt að forseti þurfi að beita synjunarvaldinu.

Höfundur er í framboði til embættis forseta Íslands.