Hugsi Það er mikið framundan hjá Guðmundi Þórði Guðmundssyni og Róberti Gunnarssyni með íslenska landsliðinu á næstu mánuðum.
Hugsi Það er mikið framundan hjá Guðmundi Þórði Guðmundssyni og Róberti Gunnarssyni með íslenska landsliðinu á næstu mánuðum. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Þetta er afar erfiður riðill og ljóst að enginn andstæðingur verður auðveldur,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, þegar Morgunblaðið náði tali af honum síðdegis í gær eftir að dregið var í riðla í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik.

Segja má með sanni að íslenska landsliðið hafi svo sannarlega dregist í sannkallaðan Austur-Evrópuriðil.

Ísland var í efsta styrkleikaflokki þegar dregið var, ásamt Spánverjum, Þjóðverjum, Frökkum, Króötum, Pólverjum og Serbum og gat því ekki lent með þeim í riðli.

Ísland dróst gegn Slóveníu úr öðrum styrkleikaflokki, Hvít-Rússum um úr þriðja flokknum og síðan bætist sigurliðið úr forkeppnisriðli C í hópinn. Forkeppnin fer fram í júní en í C-riðlinum eru Rúmenía, Ísrael, Belgía og Írland. Nær öruggt má telja að Rúmenar vinni keppni í þessum riðli og bætist í hópinn. Það var mat Guðmundur Þórðar sem sagði Rúmena hafa bætt sig mjög á síðustu árum eftir að hafa verið í lægð um nokkurt skeið. M.a. voru Rúmenar meðal þátttökuþjóða á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð í fyrra.

„Það er enginn léttur andstæðingur í okkar riðli. Allir þekkja hvers Slóvenar eru megnugir. Þeir sýndu okkur og öðrum það á EM í Serbíu í janúar að þeir eru með hörkulið. Hvít-Rússar hafa verið að byggja upp afar efnilegt lið á síðustu árum sem er til alls líklegt. Það skal enginn vanmeta þá,“ sagði Guðmundur.

Það mun liggja fyrir eftir nokkra daga gegn hverjum íslenska landsliðið leikur fyrst en samkvæmt áætlunum Handknattleikssambands Evrópu fara tvær fyrstu umferðirnar fram 31. október til 4. nóvember nk. Þráðurinn verður tekinn upp á ný í byrjun apríl á næsta ári og síðan lýkur riðlakeppninni um miðjan júní á næsta ári.

Tvær efstu þjóðirnar í hverjum riðli undankeppninnar tryggja sér keppnisrétt á Evrópumótinu sem fram fer í Danmörku frá 12. til 26. janúar 2014. Eitt af þeim liðum sem hafna í þriðja sæti í riðlakeppninni fær að auki þátttökurétt í Danmörku.

Patrekur hefði getað verið heppnari

Austurríska landsliðið, sem er undir stjórn Patreks Jóhannessonar, var alls ekki heppið með andstæðinga. Það mætir Serbum, Rússum og Bosníu. Austurríki fékk sterkasta liðið úr þriðja styrkleikaflokki, Rússa, og síðan Serba úr fyrsta flokknum.

„Það er alveg ljóst að við hefðum getað verið heppnari með andstæðinga,“ sagði Patrekur þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans eftir að niðurstaðan lá fyrir. „Sérstaklega verðum við að teljast óheppnir að hafa fengið sterkasta liðið sem mögulegt var úr þriðja flokkum, það er Rússa,“ sagði Patrekur.

„Annars ætla ég ekkert að huga að þessari keppni strax. Næst á dagskrá hjá mér með austurríska liðið verða umspilsleikir við Makedóníu um sæti á HM í júní,“ sagði Patrekur.

Spurður um riðil íslenska landsliðsins tók Patrekur undir með Guðmundi Þórði að Hvít-Rússar væru á mikilli uppleið með afar skemmtilegt og efnilegt lið sem alls ekki megi vanmeta. „Rúmenar hafa líka verið að bæta sig þótt þeir hafi enn ekki náð þeirri stöðu sem þeir höfðu á blómaskeiði sínu áður en járntjaldið féll,“ sagði Patrekur og tók undir að riðill íslenska landsliðsins væri snúinn.