Vefmyndavélar Vegagerðin er nú með 80 vefmyndavélar úti á vegum.
Vefmyndavélar Vegagerðin er nú með 80 vefmyndavélar úti á vegum. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Færst hefur í vöxt að ökumenn nýti sér vefmyndavélar Vegagerðarinnar áður en haldið er út á þjóðvegina. Beinar útsendingar frá 80 vefmyndavélum á vegum landsins er nú að finna á vefsíðu stofnunarinnar, og munu tuttugu bætast við á árinu. Að sögn G.

Færst hefur í vöxt að ökumenn nýti sér vefmyndavélar Vegagerðarinnar áður en haldið er út á þjóðvegina. Beinar útsendingar frá 80 vefmyndavélum á vegum landsins er nú að finna á vefsíðu stofnunarinnar, og munu tuttugu bætast við á árinu.

Að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, hafa umræddar myndavélar reynst vel í daglegum rekstri stofnunarinnar en í auknum mæli er hægt að fylgjast stöðugt með ástandi vega með tilkomu þeirra. Umtalsverð hagræðing hefur einnig hlotist af þessum beinu útsendingum en mikill akstur sparast auk þess sem myndirnar nýtast víða. Vefmyndavélarnar þola íslenskar aðstæður einkar vel og geta staðið af sér dágóðar hviður. Er vélunum stillt þannig upp að ávallt eru þrjár áttir á hverjum stað sýndar, þ.e. beint niður á vegi og til beggja átta.

Útsendingar myndavélanna nýtast ekki einungis starfsfólki Vegagerðarinnar og ökumönnum til að kanna færð og ástand vega heldur hefur einnig hefur borið á að flugmenn nýti sér þær til að kanna aðstæður til sjónflugs. Þá hafa myndavélarnar einnig nýst lögreglunni sem a.m.k. einu sinni hefur haft uppi á ökumanni sem sat fastur í bíl sínum í byl á Öxnadalsheiði en vissi ekki hvar nákvæmlega. Útsendingarnar má nálgast á www.vegagerd.is. gunnhildur@mbl.is