Andri Freyr Fór í Nexus.
Andri Freyr Fór í Nexus. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Andri Freyr Viðarsson sér um þáttinn Andraland sem sýndur er á fimmtudagskvöldum á RÚV. Þar sem maður verður að forgangsraða í lífi sínu getur maður ekki horft á allt sem er í sjónvarpi og ég hef ekki gert mikið af því að horfa á þennan þátt.

Andri Freyr Viðarsson sér um þáttinn Andraland sem sýndur er á fimmtudagskvöldum á RÚV. Þar sem maður verður að forgangsraða í lífi sínu getur maður ekki horft á allt sem er í sjónvarpi og ég hef ekki gert mikið af því að horfa á þennan þátt. En um daginn fór Andri í heimsókn í Nexus og um leið var ástæða til að fylgjast með.

Nexus er stórmerkur staður og þangað koma börn allt niður í þriggja ára og svo fullorðið fólk sem er svo lánsamt að hafa ekki glatað barninu í sér.

Andri var viðstaddur bardaga þar sem þátttakendur höfðu málað og skapað alls kyns bardagafígúrur og búið til umgjörð. Leikreglur voru útskýrðar fyrir Andra, hann skildi þær ekki og ólíklegt er að áhorfendur hafi skilið þær. Það sem skildist var að þarna var fólk að skapa sérstakan heim sem það lék sér síðan í, þótt það væri harðfullorðið. Það er sitthvað sjarmerandi við það.

Andri er afslappaður sjónvarpsmaður. Hann talar enga gullaldaríslensku og lítur ekki út fyrir að liggja yfir Njálu og Sturlungu, en hann er vinalegur og kátur og hefur greinilega gaman af því sem hann er að gera. Það skilar sér.

Kolbrún Bergþórsdóttir