Erling Garðar Jónasson
Erling Garðar Jónasson
Frá Erling Garðari Jónassyni: "Þegar litið er yfir þróun öldrunarumhyggju á liðnum áratugum verðum við sem nú lifum ævikvöldið og höfum haft tækifæri til að kynna okkur stöðu umhyggju aldraðra máldofa yfir þeirri byltingu sem orðið hefur á okkar æviskeiði."

Þegar litið er yfir þróun öldrunarumhyggju á liðnum áratugum verðum við sem nú lifum ævikvöldið og höfum haft tækifæri til að kynna okkur stöðu umhyggju aldraðra máldofa yfir þeirri byltingu sem orðið hefur á okkar æviskeiði. Við horfum til gömlu og nýju Grundar, afrekaskrár DAS og þeirra sögu, og örskammrar fæðingar Skjóls og síðan Eir með sína stórkostlegu þjónustu. Til 16 þjónustuselja Reykjavíkurborgar og allra þeirra hjúkrunarheimila sem borgin byggði undir forystu læknisins og borgarfulltrúans Páls Gíslasonar.

Og svo megum við ekki gleyma því að öldrunarsérfræðingar hjúkrunar og lækninga á Íslandi hafa nú miðstöð sína á Landakotsspítala og kenna þeim og þjálfa sem þjóna annarsstaðar í kerfinu.

En áður en við missum tár í hvarm skulum við skyggnast bak við tjöldin og þá sjáum við að sjálfsprottin félög eru fyrst og fremst gerendur byltingarinnar. Maður spyr. Er eitthvað að því? Nei og aftur nei, bylting hefði ekki orðið með öðrum hætti. Núna sjáum við það staðfest með ótrúlegu og endurteknu sjálfboðastarfi og fjármögnun Oddfellow-hreyfingarinnar við stækkun líknardeildar í Kópavogi.

Við sem nú erum í þeim sporum að verða þolendur og notendur þjónustunnar hljótum að segja við Oddfellowa og aðra þá sem brautirnar ruddu, takk fyrir, við erum hreykin af ykkur, takk.

Margrétar Ósvaldsdóttir, stjórnandi Seljahlíðar, segir í grein: „hvernig hugsjónir gerjist og gerist til vera að gagni, og að forsenda framsýni sé forvitni og upplýsingaöflun. Fylgjast þarf með hverjir standa sig best í málaflokknum og hvaða aðferðum þeir beita. Síðast en ekki síst, hvers óska þeir sem þiggja þjónustuna. Það er nú einmitt þannig að líta ber á ábendingar og/eða kvartanir viðskiptavina sem ókeypis ráðgjöf til þeirra sem stjórna því hvar og hvernig þjónusta skuli veitt. Hlustum því eftir ábendingum og reynum ávallt að gera betur í dag en í gær, því svo lengi lærir sem lifir. Þessi þjónusta eins og önnur hefur því breyst í takt við tíðarandann eða átt sögulega samleið með framþróun á öllum sviðum lífsins“.

ERLING GARÐAR

JÓNASSON,

formaður Samtaka aldraðra.

Frá Erling Garðari Jónassyni