Meistaranemi Ása Berglind Hjálmarsdóttir vinnur með Tónum og trix.
Meistaranemi Ása Berglind Hjálmarsdóttir vinnur með Tónum og trix.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ása Berglind Hjálmarsdóttir, meistaranemi í listkennslunámi við Listaháskóla Íslands, skrifar lokaverkefni sitt í listkennslu um samspil tónlistar og líðanar eldri borgara. Ása Berglind segir tónlistarstarfið gefa hópnum mikla lífsfyllingu.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Það er einhver tilfinning inni í þessu, einhver kraftur sem gefur öllum svo mikið,“ segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir, meistaranemi í listkennslunámi við Listaháskóla Íslands. Hún vinnur nú að rannsókn á áhrifum tónlistar á líðan eldri borgara. Hún hefur, ásamt hópi fólks sem kallar sig Tónar og trix, unnið að tónlistarsköpun frá árinu 2007. Hópurinn er á breiðu aldursbili; frá sjötugsaldri til níræðs. „Þetta byrjaði sem hluti af lokaverkefni mínu í BA-námi. Svo vatt þetta upp á sig og við hittumst enn í dag,“ segir Ása Berglind. Hún vinnur nú að lokaverkefni sínu í listkennslunámi. Í því tekur hún viðtöl við þátttakendur í hópnum og metur hvaða áhrif söngurinn hefur á daglegt líf þeirra.

„Þetta er unnið með hjálp viðtala og dagbókarskrifa. Í þessum viðtölum hefur komið fram hversu mikils virði þetta er fyrir þá sem taka þátt í því,“ segir Ása Berglind. Þegar hópurinn kemur saman eru sungin dægurlög. Bæði gömul og ný. Nýlega tókst hópurinn til að mynda á við lagið „Brotlentur“ með hljómsveitinni Valdimar.

Miklar framfarir

„Þetta er hópur sem ég hef verið að vinna með frá 2007. Við erum með hljóðfæri og gömul dægurlög. Svo sköpum við líka tónlist. Reglulega kemur einhver með eitthvað sem hann hefur verið að vinna að heima hjá sér, bæði texta og lög. Vanalega vinnum við þetta hins vegar í sameiningu. Margir voru feimnir við hljóðfærin til þess að byrja með, fljótlega fór fólk þó að ná færni í spilun. „Það hafa orðið miklar framfarir. Allir fengu hljóðfæri í tengslum við þetta verkefni og við bættum við klukkutíma á viku en svo sá maður alveg hvernig áhuginn jókst og fólk varð í raun hissa á sjálfu sér,“ segir Ása Berglind.

Rannsókn á líðan fólks

Rannsóknin gengur út á skoða hvaða áhrif markviss tónlistariðkun hefur á líðan eldri borgara.

Þetta er eigindleg rannsókn unnin með viðtölum og dagbókarskrifum. „Í þessum viðtölum hefur komið fram hversu mikils virði þetta er fólkinu. Fyrir suma er þetta jafnvel gamall draumur sem er að rætast en aðrir gera þetta út af einhverju öðru. Einn viðmælandinn náði til að mynda að minnka þunglyndislyfjaskammtinn sinn um helming eftir að hann byrjaði í þessari tónlistarsköpun með okkur.

Þetta gefur þeim mikla lífsfyllingu og að koma fram á tónleikum og sýna öðrum í samfélaginu að þau geta gert ýmislegt. Fólkið sem byrjaði árið 2007 er nánast allt með ennþá. Svo hafa nýir bæst við, en hópurinn samanstendur af 18 einstaklingum.“

Frumsamið efni

Hljóðfærin sem hópurinn notast við eru helst ásláttarhljóðfæri á borð við sílófón, málmspil, trommur og annað slagverk en Ása Beglind sér um undirspil á píanó og trommur.

„Við erum með mjög fjölbreytt lagaval, eins og Valdimarslagið er dæmi um. Svo erum við líka með frumsamið efni. Yfirleitt fer það þannig fram að allir vinna saman að laginu, en svo gerist það líka að fólk kemur með að heiman það sem það er að gera þar, bæði ljóð og lög,“ segir Ása Berglind.

Ekki er vitað til þess að fleiri eldri borgarar komi saman á Íslandi. Berglind hvetur hins vegar alla til tónlistarþátttöku. „Þetta hefur hreinlega áhrif á lífsgæði. Ég er enn á frumstigi við úrvinnslu gagnanna en það er margt sem gefur til kynna að þetta veiti fólki einhvers konar lífsfyllingu,“ segir Ása Berglind.

Sjálf á hún sterkar rætur í tónlist. „Ég hef alltaf verið í tónlistarskóla og er trompetleikari auk þess að vera í listkennslunámi,“ segir Ása. Hún starfar sem tónmenntakennari við grunnskólann í Þorlákshöfn og kennir í tónlistarskóla Árnesinga.

LJÓÐAGERÐ

Haust

Þó sól á lofti lækki

ég leik mér enn um sinn,

og æskuárum fækki

ég áfram þráðinn spinn.

Í Tónalandi ég lifi,

þar lífsgleðina finn.

Þó taktfast klukkan tifi

og tíminn hrukki kinn.

Ég trommuna slæ, taktinum næ,

tipla á tá og hæl.

Er Tónar og Trix

með sín tilþrif og mix,

tekur lagið með stæl.

Ljóð eftir Erlu Markúsdóttir