Fjármálaráðherrar G20-ríkjanna funda nú í Washington, þar sem m.a.

Fjármálaráðherrar G20-ríkjanna funda nú í Washington, þar sem m.a. eru ræddar óskir Christine Lagarde, forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um að lánageta sjóðsins verði aukin um 400 milljarða dollara, eða sem samsvarar rúmum 50 þúsund milljörðum íslenskra króna.

BBC greindi frá því í gær að hart væri sótt að George Osborne, fjármálaráðherra Breta, á fundinum og hann hvattur til þess að beita sér fyrir auknum lánum til efnahagskerfa í vanda.

Haft er eftir Osborne að allar ákvarðanir um að auka lánagetu AGS verði að taka hnattrænt. Þegar liggja fyrir loforð mismunandi ríkja um að leggja AGS til aukið fé upp á um 320 milljarða dollara. Þar af hefur Japan lofað 60 milljörðum dollara. Ólíklegt er talið að Bandaríkin lofi að auka framlag sitt til AGS, en Andrew Walker, fréttaskýrandi BBC í efnahagsmálum, segir að slíkt myndi mælast illa fyrir í Bandaríkjunum, svo skömmu fyrir forsetakosningar.