Hans Ágúst Guðmundsson Beck fæddist í Reykjavík 22. ágúst 1986. Hann lést í bílslysi á Ólafsfjarðarvegi 26. mars 2012.

Útför Hans Ágústs fór fram frá Glerárkirkju 3. apríl 2012.

Vorið var handan við hornið og þýddi það að uppáhaldstími Hansa og fjölskyldu hans var á næsta leiti. Tíminn þar sem knattspyrnan var stunduð af fullum krafti og öll fjölskyldan þín tók fullan þátt í með þér. En eins óskiljanlegt og það er spilar þú ekki knattspyrnu í sumar því þú hefur verið kallaður til annarra starfa. Við sem eftir sitjum höfum margar spurningar en fátt er um svör.

Við kynntumst þegar þú fórst að vera með Birnu Sif. Frá byrjun var ljóst að ykkur var ætlað að vera saman og ástin blómstraði. Við vorum svo lánsöm að fá að taka þátt í að skipuleggja og upplifa brúðkaupsdag þinn og Birnu í ágúst í fyrra, var þetta með fallegri dögum sem við höfum upplifað og var hann alveg í ykkar stíl, stutt en falleg athöfn og svo veisla í faðmi fjölskyldunnar.

Fjölskyldan var þér allt og var frábært að sjá hvað þú og Björn Smári sonur Birnu náðuð vel saman. Tíminn sem þú fékkst að vera með son þinn var einnig vel nýttur og var þá mikið brallað saman enda oft ekki vitað hvenær fjölskyldan fengi að sjá hann næst.

Rafmagns- og tölvuhjálp var alltaf hægt að nálgast hjá þér enda alltaf tilbúinn að hjálpa til ef eitthvað var að. Þú varst ekki margorður en þegar þú talaðir fylgdi því oft mikill húmor og hlátur.

Við höfðum gert samning um það að um næstu jól myndi ég baka fyrir þig lakkrístoppa og í staðinn ætlaðir þú að baka fyrir mig sörur en það verður eitthvað í það að við fáum að smakka sörurnar þínar aftur.

Við kveðjum þig með söknuði og munum styðja við Birnu og Björn og hjálpast að við að halda minningunni um þig lifandi

Góða ferð og við sjáumst aftur seinna.

Farðu í friði, vinur minn kær,

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær,

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens.)

Kveðja

Ólöf og Benedikt.