Gjöf Forsvarsmenn Lions á Íslandi og alþjóðaforsetinn Wing-Kun Tam afhenda Birni Zoëga, forstjóra LSH, ávísun fyrir gjöfinni til augndeildar í gær.
Gjöf Forsvarsmenn Lions á Íslandi og alþjóðaforsetinn Wing-Kun Tam afhenda Birni Zoëga, forstjóra LSH, ávísun fyrir gjöfinni til augndeildar í gær. — Ljósmynd/Jóhann Guðni Reynisson
Lionshreyfingin á Íslandi gaf Landspítalanum í gær 20 milljóna króna ávísun sem ætluð er til kaupa á augnlækningatæki sem bráðvantað hefur á augndeild spítalans.

Lionshreyfingin á Íslandi gaf Landspítalanum í gær 20 milljóna króna ávísun sem ætluð er til kaupa á augnlækningatæki sem bráðvantað hefur á augndeild spítalans. Gjöfin er að helmingi til fjármögnuð með framlögum Lionsklúbba hér á landi og helmingi með framlagi úr alþjóðahjálparsjóði Lions í tilefni 60 ára afmælis hreyfingarinnar á Íslandi.

Viðstaddur afhendinguna var alþjóðaforseti Lions, Wing-Kun Tam, sem kom til landsins vegna afmælisþings sem Lions heldur um helgina. Með þinginu og athöfninni á Landspítalanum lýkur formlega hátíðarhöldum vegna 60 ára afmælisins en fyrsti klúbburinn; Lionsklúbbur Reykjavíkur, var stofnaður í ágúst árið 1951.

Í tilkynningu frá Lions kemur m.a. fram að við sölu fyrstu Rauðu fjaðrarinnar hér á landi hafi verið gert stórátak í tækjavæðingu augndeilda íslenskra sjúkrahúsa, auk þess sem heilsugæslustöðvar hafi verið búnar tækjum, augnþrýstimælum o.fl. Á síðustu árum hafi augnlækningar hins vegar setið á hakanum hvað tækjavæðingu varðar. Þess vegna hafi Lionsfélagar ákveðið að safna fyrir og kaupa búnað sem helst kæmi augnskurðdeild Landspítalans að gagni. Tækið sem Lions gefur er notað til aðgerða innarlega í auga, s.s. í glerhlaupi og sjónhimnu, t.d. vegna sjónhimnuloss, við aðgerðir vegna sykursýkiskemmda í augnbotni og einnig vegna áverka eftir slys.

Gærdagurinn var annasamur hjá alþjóðaforseta Lions. Auk afhendingarinnar á spítalanum átti hann fund með Ólafi Ragnari Grímssyni forseta og setti síðan afmælisþing Lions í Neskirkju eftir að hafa gengið í fararbroddi skrúðgöngu um 300 Lionsfélaga frá Hótel Sögu að kirkjunni. Bæði Wing-Kun Tam og Ólafur Ragnar munu flytja ávörp á hátíðarkvöldverði Lions í kvöld.