Gersemar Iðnnám er fjölbreytt. Í Tækniskólanum má nema gullsmíði þar sem Harpa Kristjánsdóttir kennir handtökin.
Gersemar Iðnnám er fjölbreytt. Í Tækniskólanum má nema gullsmíði þar sem Harpa Kristjánsdóttir kennir handtökin. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nemendur á skólastigum ofan grunnskóla á Íslandi voru 46.217 haustið 2011 og hafði fjölgað um ríflega 1.200 frá fyrra ári. Alls sóttu nærri 21 þúsund karlar nám og ríflega 25 þúsund konur.

Nemendur á skólastigum ofan grunnskóla á Íslandi voru 46.217 haustið 2011 og hafði fjölgað um ríflega 1.200 frá fyrra ári. Alls sóttu nærri 21 þúsund karlar nám og ríflega 25 þúsund konur. Á framhaldsskólastigi voru rösklega 26 þúsund nemar og fjölgaði um 3,9% frá fyrra ári. Á háskólastigi í heild voru 19.099 nemendur og fjölgaði um 1,3% frá haustinu 2010.

Tæplega 90% sautján ára nemenda eru í framhaldsskóla. Ekki hafa áður verið fleiri á þeim aldri í skóla, að undanskildu haustinu 2009.

Skapandi greinar skora

Skólasókn 16 ára ungmenna á Íslandi haustið 2011 er um 95%, sem er sama hlutfall og undanfarin ár. Hlutfallslega flestir sextán ára unglingar sækja skóla á Vesturlandi eða 97%, en fæstir á Norðurlandi vestra, 90%.

Þriðji hver nemandi á framhaldsskólastigi er í starfsnámi – eða iðngreinum – og hafa þeir ekki verið færri síðasta áratug. „Einfalda svarið við þessu er að allt framhaldsskólakerfið er fremur miðað við bóknám fremur en starfsnám og fyrir vikið leita fleiri í það,“ segir Jón B. Stefánsson, skólameistari Tækniskólans – skóla atvinnulífsins, í samtali við Morgunblaðið.

„Ríkjandi aðstæður í þjóðfélaginu hafa líka áhrif í þessu sambandi. Áhugi á byggingagreinum eðilega er minni og færri fara til náms á því sviði, enda eru framkvæmdir alveg í lágmarki. Aftur á móti hefur áhugi á skapandi fögum hér í Tækniskólanum aukist, til dæmis tölvugreinum og fatahönnun þó að á móti komi að þar séu fjöldatakmarkanir – á sama tíma og bóknámið tekur við öllum.“

Færri doktorar

Nemendum á meistarastigi og doktorsstigi háskóla landsins fækkar á milli ára. Meistaranemum í háskólanna hefur fjölgað ár frá ári þar til haustið 2011, þegar þeim fækkaði um 59 úr 4.243 haustið 2010 í 4.176, eða um 1,4%. Sömu sögu er að segja af doktorsstigi. Þar hefur nemendum fjölgað árlega frá árinu 2001 en fækkar nú úr 478 í 452. sbs@mbl.is