Sigurður Júlíusson fæddist í Reykjavík 23. nóvember 1935. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi þriðjudaginn 10. apríl 2012.

Útför Sigurðar fór fram frá Hafnarfjarðarkirkju 18. apríl 2012.

Ágæti drengur, vinur minn og fjölskyldu. Þótt ótrúlegt sé að ég verði orðvana, þá varð ég það er ég kvaddi þig síðdegis 10. apríl sl. Þá varst þú afar langt leiddur og er ég tók í hönd þér var handtakið ólíkt þér. Örstutt handtak, lífsskeið okkar birtist mér hratt.

Ég vil þakka þér sérstaka vináttu frá því er við kynntumst haustið 1960 og allt til þinnar hinstu stundar.

Það er þér að þakka og þínum afburða mannkostum að alltaf fór vel á með okkur. Þú með þitt æðruleysi og græskulaust tal um alla er við þekktum bjargaði því.

Mestalla ævi þína vannst þú hjá Ísal, allt frá byggingu hafnarinnar, síðar í kerskála, þangað til þú vegna aldurs fórst á eftirlaun. Einnig á þeim árum hugsaðir þú um móður þína, að föður þínum látnum, þar til hún þurfti að fara á elliheimili. Þetta sýnir mjög vel hve traustur maður þú varst og fórnfús.

Að lokum veit ég að skoðun þín rætist, að þú hittir þína brottfluttu ástvini aftur.

Við kveðjum þig með þakklæti í huga. Þín minning er okkur kær.

Árni og Jakobína.