Hólpinn Guðmundur Sveinbjörn Ingimarsson með Tinna og Magnúsi Gottfreðssyni, eiganda hans.
Hólpinn Guðmundur Sveinbjörn Ingimarsson með Tinna og Magnúsi Gottfreðssyni, eiganda hans. — Ljósmynd/Ólafur Þór Rúdolfsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is „Þetta var mjög góð æfing og raunveruleg í alla staði,“ segir Guðmundur Sveinbjörn Ingimarsson, sem í fyrradag seig niður í um 15 metra djúpa sprungu á Eyjafjallajökli og bjargaði Labrador-hundinum Tinna.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

„Þetta var mjög góð æfing og raunveruleg í alla staði,“ segir Guðmundur Sveinbjörn Ingimarsson, sem í fyrradag seig niður í um 15 metra djúpa sprungu á Eyjafjallajökli og bjargaði Labrador-hundinum Tinna. „Við stóðum að þessu eins og við björgun á fólki og eðlilega var mikið fagnað þegar hundurinn var kominn heilu og höldnu upp á brún aftur.“

Guðmundur var í um 70 manna hópi á vegum Ferðafélags Íslands á Eyjafjallajökli á fimmtudaginn, sumardaginn fyrsta. Þarna var einnig á ferð rúmlega 20 manna hópur á vegum Félags íslenskra fjallalækna, en hundurinn er í eigu eins þeirra. Jökullinn er talsvert sprunginn og féll Tinni ofan í sprungu í um 1540 metra hæð. Læknarnir höfðu samband við Ferðafélagshópinn og óskuðu eftir aðstoð við að bjarga hundinum og komu þeir á vettvang rúmlega tveimur tímum síðar, eftir að hafa gengið á topp jökulsins.

Hrikalega kaldur

Sett var upp línubjörgunarkerfi og Guðmundur seig niður á eftir hundinum, en Ólafur Þór Rúdolfsson aðstoðaði hann á brúninni. Þeir eru báðir reyndir björgunarsveitar- og leiðsögumenn og hafa æft sprungubjörgun sérstaklega.

„Hundurinn var orðinn hrikalega kaldur í sprungunni svo hann gat sig hvergi hreyft og kom ekki lengur frá sér hljóði,“ segir Guðmundur. „Ég tjaslaði sigbelti utan um hundinn, sem síðan var dreginn upp og ég á eftir. Þetta fór allt mjög vel og Tinni var fljótur að jafna sig, en það er sannarlega varhugavert að vera með lausa hunda á jökli.“