Ragna Jónsdóttir fæddist í Nýhöfn á Eyrarbakka þann 19. júlí 1930. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Ljósheimum á Selfossi þann 14. apríl sl. Ragna var dóttir hjónanna Guðríðar Guðjónsdóttur, f. 7.7. 1895, d. 22.5. 1972, og Jóns Þórarins Tómassonar, f. 20.3. 1890, d. 14.11. 1963. Systir Rögnu var Kristín Jónsdóttir, f. 9.10. 1921, d. 12.6. 2010.

Eftirlifandi eiginmaður Rögnu er Jóhann Jóhannsson, f. 6.11. 1927. Dætur þeirra: 1) Unnur, f. 9.10. 1953, maki Guðmundur Stefánsson, f. 17.11. 1954, börn þeirra eru Jóhanna Íris, f. 30.5. 1974, maki Róbert Magnús Kristmundsson, f. 22.12. 1973. Þau eiga 3 börn, Stefán, f. 2.5. 1982, sambýliskona Alma Tryggvadóttir, f. 6.1. 1983. Birna, f. 31.5. 1992. 2) Ingibjörg, f. 23.6. 1955, maki Jón Guðmundsson, f. 11.4. 1956, börn þeirra eru Jóhann, f. 19.7. 1980, sambýliskona Jessi Kingan, f. 23.8. 1986, Ragna, f. 12.7. 1983, sambýlismaður Gísli Birgir Ómarsson, f. 1.7. 1980, Pálmar f. 14.4. 1986. 3) Sólrún, f. 28.11. 1963, maki Jóhannes Þorgeirsson, f. 29.6. 1963, börn þeirra eru Vignir, f. 6.9. 1990, unnusta Hildur Karen Einarsdóttir, f. 29.4. 1990, Ósk, f. 7.6. 1998.

Útför Rögnu fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, 21. apríl 2012, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Amma

Lítil stúlka í faðmi mömmu

glitra má sjá tár.

Grætur, syrgir, saknar ömmu

í hjartað var komið sár.

Lífið er eins og lítið lag

sem fæðist, lifir og deyr.

Hún amma var að kveðja í dag,

lagið hennar var víst ekki meir.

Margar góðar minningar vakna

á meðan hún var með okkur hér.

En ávallt mun ég ömmu sakna

hugsa ég með mér.

(Heiðdís Haukdal)

Amma, elsku besta amma mín. Nú er baráttunni loksins lokið, kominn tími á hvíldina eftir löng og erfið veikindi. Ég kveð þig með miklum söknuði en veit að þú ert komin á bjartari stað með bros á vör.

Stað þar sem þú getur farið í flottu fötin þín, gert þig fína og sæta og svo prjónað, eldað og bakað eins og þér einni var lagið. Hugur minn er fullur af góðum minningum af bakkanum þar sem ég fékk ósjaldan að vera. Feluleikur uppi á lofti í Hlöðufelli, bak við frystikistuna eða inni í kompu... þar gerðust líka ótrúlegustu ævintýri.

Sauma öskupoka, baka pönnsur, bíltúrar og ferðalög. Ísbíltúr í Eden og berjamór; alltaf var eitthvað skemmtilegt að gera.

Ég var svo heppin að eiga ömmu sem var alltaf til staðar. Ég minnist þess hversu góðar vinkonur við vorum, við gátum hlegið og grátið saman og hún var alltaf svo áhugasöm um allt sem ég gerði.

Elsku amma, minning þín lifir áfram í hjarta mínu og börnin mín þrjú fá að kynnast þér betur í gegnum bernskuminningar mínar um elsku ömmu Rögnu. Takk fyrir allar stundirnar sem við áttum saman.

Megi Guð geyma þig og hvíl í friði.

Jóhanna.

Kveðja.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku amma. Eftir erfið veikindi er bið þín loks á enda. Löng og ströng barátta búin. En nú ertu komin á betri stað þar sem þú getur hlaupið um og sungið.

Lífið í Hlöðufelli er eins og ljúf minning. Öll matarboðin, ísinn og frómasinn og langlanglangbestu pönnukökurnar. Alltaf var glatt á hjalla og vel tekið á móti okkur. Amma sat með prjónana í stofunni og skiptist á að prjóna á okkur barnabörnin, peysur, vettlinga og sokka. Engum skyldi verða kalt. Píanóið uppi og allir leynistaðirnir voru heill ævintýraheimur fyrir litla sem stóra.

Kartöflugarðurinn og gulræturnar og rólan á snúrunum... Allt þetta og meira til sem yljar manni um hjartarætur. Takk fyrir okkur elsku amma Ragna, þú átt stóran stað í hjörtum okkar allra.

Jóhanna, Stefán, Birna,

Jóhann, Ragna, Pálmar, Vignir, Ósk, Norma Dögg, Viktor og Óttar.