Einar Hannesson
Einar Hannesson
Eftir Einar Hannesson: "80 ár eru frá opnun fyrsta laxastiga í Lagarfossi. Er góðum árangri af laxastiga hjá Búða stefnt í hættu með virkjunaráformum?"

Laxastigar eða fiskvegir eins og þeir eru oft nefndir flokkast m.a. undir hugtakið fiskrækt. Með slíkri framkvæmd er verið að opna laxi leið að stærra vatnasvæði framhjá náttúrulegri hindrun í straumvatni eða auðvelda fiski göngu um tímabundna hindrun eins og straumþunga í ánni.

Á sínum tíma gerði höfundur þessa pistils sem starfsmaður Veiðimálastofnunar samantekt um ráðagerðir til umbóta á þessu sviði sem birtist í búnaðarblaðinu Frey 1988. Þar kemur fram að á tímabilinu 1908 til 1986 hafi í 82 skipti verið áform af þessu tagi sem oft leiddu til minni eða meiriháttar framkvæmda.

Umfang aðgerða á þessu sviði var ótrúlega mikið hér á landi á síðustu öld, ekki síst á seinni hluta hennar. Segja má að á tímabilinu hafi að jafnaði verið tekinn í notkun einn fiskvegur á ári frá miðri öld til síðustu aldamóta.

50% aukning göngu- og búsvæða laxfiska

Með byggingu laxastiganna komst laxinn inn á ný göngu- og búsvæði ánna sem svarar til 50% aukningar á heildargönguleiðum íslenska laxins í ánum fyrir gerð fiskveganna (Veiðimálastofnun, Hafdís Hauksdóttir, lokaprófsverkefni við Bændaskólann á Hvanneyri 1999). Það jafngildir í kílómetrum talið heildarlengd allra laxánna á Vesturlandi. Þetta sýnir vel hversu stórfelld fiskræktin vegna laxastigagerðar hefur verið á öldinni sem leið.

Fyrsti alvöru fiskvegurinn ef svo má taka til orða var byggður hér á landi í Lagarfossi í Lagarfljóti árið 1932. Eru því á þessu ári liðin 80 ár frá fyrstu framkvæmd á þessari tegund mannvirkja. Og auðvitað gildir það sama um þessi mannvirki og önnur t.d. um leyfisveitingar, sbr. Lög um lax- og silungsveiði, og ákveðnar kröfur gerðar um fyrirkomulag og byggingu þeirra.

Laxastiginn í Þjórsá

Sumarið 1992 var tekinn í notkun glæsilegur fiskvegur í Þjórsá í Árnesey hjá fossinum Búða sem er 5-6 metra hár. Með framkvæmd þessari var opnuð leið fyrir lax og annan göngufisk inn á 25 km langt svæði ofar í ánni, auk þveráa hennar. Það var Landsvirkjun sem byggði stigann og tengist virkjunarframkvæmdum í vatnakerfi Þjórsár og liður í tjónabótum vegna þeirrar röskunar sem þessu hafa fylgt á afréttum. Þessi fiskræktaraðgerð hjá Búða endurspeglar vel fyrrgreinda 50 af hundraði aukningu á gönguleiðum laxfiska því að frá sjávarósi Þjórsár eru 48 km að Búðafossi.

Árangursrík fiskrækt

Talningar á fiskgengd um fiskveginn hjá Búða sýna að hann hefur virkað vel. Því er nú að byggjast upp náttúrulegur stofn laxfiska á efri hluta Þjórsár. Þetta staðfestir árlegt meðaltal veiði í ánni sl. fimm ár. Þessi þróun mun halda áfram því það mun taka lengri tíma að fullsetja búsvæði fiskstofna á svæðinu. Margir óttast að virkjun Þjórsár í byggð muni stórskaða laxastofn árinnar. Það yrði sorgleg niðurstaða ef þessi árangursríka fiskrækt með byggingu stigans við Búða hefði verið unnin fyrir gýg.

Ný manngerð ásýnd

Virkjanirnar fjórar sem fyrirhugaðar eru í neðri hluta árinnar munu með tilheyrandi 12-15 metra háum stíflum mynda lón að heildarflatamáli 20 ferkílómetrar. Það svarar til fjórðungs af flatarmáli Þingvallavatns, stærsta náttúrulega stöðuvatn landsins. Ekki er víst að fólk geri sér almennt grein fyrir því hversu áin og umhverfi hennar mun taka á sig breytta mynd við framkvæmdir þessar.

Höfundur starfaði við veiðimál í 57 ár.