Anna Marta Helgadóttir fæddist í Tröð í Kollsvík við Patreksfjörð 13. nóvember 1924. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Blönduóss 10. apríl sl.

Útför hennar fór fram frá Þingeyrakirkju laugardaginn 14. apríl 2012.

Fyrstu geislar morgunsólar gylltu fjallatinda og heiðarbrúnir, heilladísir vorsins voru að byrja að stilla strengi sína við engi og tún, hún talaði oft um það hvað vorið væri yndislegur tími þegar hljómar mófuglanna fylltu loftin blá og gott er að hún fékk að kveðja á þessum fallega tíma.

Látin er kær tengdamóðir mín, Anna Marta Helgadóttir frá Uppsölum.

Anna átti ætíð bjart vor í hug og hjarta og þrátt fyrir annasama og erfiða daga á stóru sveitaheimili heyrðist þessi netta kona aldrei kvarta heldur var ætíð hlýja og umhyggja fyrir öðrum í fyrirrúmi hjá henni.

Anna kom ung að árum í Húnavatnssýsluna, þar kynntist hún ungum manni úr sveitinni sem varð til þess að þau gengu í hjónaband og hófu búskap að Uppsölum í Sveinsstaðahreppi nú í Húnaþingi eystra. Anna tókst á við bústörfin af miklum myndarskap og dugnaði en hún lifði í sínum búskap einhverja þá mestu breytingatíma sem orðið hafa í íslenskum sveitum.

Allt frá því á fyrstu búskaparárum sínum þegar mat og vefnaðarvara var unnin að mestu á heimilinu og til þess tíma þegar flest var hægt að fá í búðum eða í kaupfélaginu. Nærri má nærri geta að oft hefur verið annasamt hjá Önnu með stórt heimili, börnin mörg og heimili gestkvæmt, en hún hélt ætíð í þá gömlu hefð að búa heimilið vel að mat að hausti og var algjör snillingur í þeim efnum. Eins lengi og hún hafði heilsu til verkaði hún sjálf sitt jólahangikjöt, gerði sjálf sitt slátur og var ætíð einstaklega notalegt að koma í eldhúsið til hennar og njóta glaðværðar hennar sem og ljúffengra ekta íslenskra sveitarétta sem hún var fljót að töfra fram fyrir gesti sína. Síðustu æviár sín glímdi Anna við erfið veikindi en tókst á við þá erfiðleika af sínu alkunna æðruleysi en ætíð var þó stutt í glaðværð og skemmtileg tilsvör hjá henni. Votta ég ættingjum og vinum mína dýpstu samúð. Guð blessi minninguna um góða konu.

Hjálmar Magnússon.