Þrír skákmeistarar eiga raunhæfa möguleika á Íslandsmeistaratitlinum, þegar þremur umferðum er ólokið á Íslandsmótinu í skák, sem fram fer í Stúkunni í Kópavogi.

Þrír skákmeistarar eiga raunhæfa möguleika á Íslandsmeistaratitlinum, þegar þremur umferðum er ólokið á Íslandsmótinu í skák, sem fram fer í Stúkunni í Kópavogi.

Þröstur Þórhallsson er nú efstur ásamt Henrik Danielsen, eftir að sá fyrrnefndi sigraði Davíð Kjartansson í 8. umferð í gær. Henrik þurfti hinsvegar að berjast fyrir jafntefli gegn Guðmundi Kjartanssyni í lengstu skák Íslandsmótsins til þessa. Þeir glímdu í 132 leiki áður en sæst var á skiptan hlut.

Þröstur og Henrik hafa sex vinninga af átta mögulegum, þegar þrjár umferðir eru eftir. Bragi Þorfinnsson er í þriðja sæti með 5,5 vinninga, eftir sigur á Birni Þorfinnssyni í hörkuskák.

Sem fyrr einkennist Íslandsmótið af mikilli baráttu og er teflt til þrautar í hverri einustu skák að því er segir í frétt á vef Skáksambandsins. Undantekning 8. umferðar var þó skák stórmeistaranna Stefáns Kristjánssonar og Hannesar Hlífars Stefánssonar. Þeir gerðu jafntefli í aðeins tíu leikjum, en hvorugur hefur staðið undir væntingum á Íslandsmótinu að þessu sinni. Einar Hjalti Jensson lagði Sigurbjörn Björnsson í 60 leikjum, og þeir Guðmundur Gíslason og Dagur Arngrímsson gerðu jafntefli í jafnri skák.

Þröstur, Henrik og Bragi munu á næstu þremur dögum keppa um hver kemur fyrstur í mark á Íslandsmótinu. Henrik hefur einu sinni orðið Íslandsmeistari, en hvorki Braga né Þresti hefur ennþá auðnast að hampa titlinum. Það er því mikið í húfi, og útlit fyrir æsispennandi lokaumferðir á Íslandsmótinu 2012.