Hestastúlka Svala Jónsdóttir hampar Gunnarsbikarnum.
Hestastúlka Svala Jónsdóttir hampar Gunnarsbikarnum. — Ljósm/Kristín Jónsdóttir
Hinn árlegi Skeifudagur Grana var haldinn hátíðlegur við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri sumardaginn fyrsta. Þessi dagur er hátíðisdagur hestamanna þar sem nemar skólans sýna árangur vetrarins við tamningar og þjálfun.

Hinn árlegi Skeifudagur Grana var haldinn hátíðlegur við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri sumardaginn fyrsta. Þessi dagur er hátíðisdagur hestamanna þar sem nemar skólans sýna árangur vetrarins við tamningar og þjálfun. Reiðkennararnir Haukur Bjarnason og Randi Holaker á Skáney hafa séð um kennsluna í vetur.

Svala sópaði verðlaunum

Að þessu sinni var það Skagfirðingurinn Svala Guðmundsdóttir sem sópaði að sér verðlaunum – og fékk viðurkenningu Félags tamningamanna fyrir bestu ásetuna, Morgunblaðsskeifuna fyrir samanlagðan árangur í þjálfun og tamningum og Gunnarsbikarinn en hann er veittur þeim sem sigrar í gangtegundakeppni nemenda og er í minningu Gunnars Bjarnasonar, hrossaræktarráðunautar.

Eiðfaxabikarinn fyrir bestan árangur í bóklegum áfanga í hrossarækt hlaut Hrafnhildur Tíbrá Halldórsdóttir og Heiðrún Halldórsdóttir Framfarabikarinn sem veittur er í minningu Reynis Aðalsteinssonar fyrir bestu ástundun og framfarir í reiðmennsku og þjálfun á námstímanum.

Fengu folatoll

Að þessu sinni útskrifuðust einnig um 60 nemar úr námskeiðsröðinni Reiðmanninum. Útskriftarhóparnir voru frá Sörlastöðum, Borgarnesi, Akureyri, Iðavöllum og Flúðum.

„Dagurinn tókst í alla staði vel og skein bros af andlitum nema og þó ekki síður áhorfenda sem margir hverjir höfðu haft heppnina með sér og unnið folatolla í happdrætti Hestamannafélagsins Grana. Góður árangur á björtum og fallegum sumardegi,“ segir í fréttatilkynningu.