Ákveðinn Ólafur Ólafsson hvatti samherja sína í Grindavík til dáða af sjúkrabörunum þegar hann var fluttur slasaður af leikvelli í fyrrakvöld.
Ákveðinn Ólafur Ólafsson hvatti samherja sína í Grindavík til dáða af sjúkrabörunum þegar hann var fluttur slasaður af leikvelli í fyrrakvöld. — Ljósmynd/Jón Björn Ólafsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Ólafur Már Þórisson omt@mbl.is Það fór ekki framhjá neinum sem á horfði þegar Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur, meiddist í fjórða leik liðsins gegn Stjörnunni á fimmtudagskvöldið.

Körfubolti

Ólafur Már Þórisson

omt@mbl.is

Það fór ekki framhjá neinum sem á horfði þegar Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur, meiddist í fjórða leik liðsins gegn Stjörnunni á fimmtudagskvöldið. Það var undir lok fyrsta leikhluta sem Ólafur lenti illa með þeim afleiðingum að hann fór úr lið á ökkla. Það var strax ljóst að hann myndi ekki spila meira með liðinu á leiktíðinni og hvað þá í leiknum. Grindavík gerði þó það eina sem Ólafur óskaði sér á þeim tímapunkti; vann Stjörnuna. Með því tryggði liðið sér sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik gegn Þór frá Þorlákshöfn.

Ólafur gaf sér tíma í gær til að ræða við Morgunblaðið um atvikið og meiðslin. Ólafur var að reyna að koma í veg fyrir meiðsli þegar atvikið átti sér stað. „Ég var að slást um frákastið og reyndi að gæta mín að snúa mig ekki. Þá hrasaði ég og Jovan Sdravevski ofan á mig alveg óviljandi að sjálfsögðu og þá lagðist meiri þungi á ökklann.“

Sýnir hvaða manneskju Teitur hefur að geyma

Ólafur sagðist ekki hafa trúað hversu alvarleg meiðslin voru. „Ég var að bíða eftir því að löppin myndi fara til baka úr L. En þegar ég sá hana þá bara öskraði ég og var skíthræddur. Það var mikið áfall en þá kom Teitur [Örlygsson þjálfari Stjörnunnar] og stökk á mig. Hann sagði mér að horfa ekki á þetta og róaði mig aðeins niður.

Hann fær náttúrlega risastóran plús fyrir það og það sýnir, þó hann sé mikill keppnismaður, hvernig manneskja Teitur Örlygsson er,“ sagði Ólafur sem hringdi svo í hann eftir að hann kom af sjúkrahúsinu og þakkaði honum fyrir sinn þátt.

Ólafur segir alls óvíst hversu alvarleg meiðslin eru en eitt sé þó víst að ökklinn sé illa farinn. „Það er pottþétt eitthvað slitið, alveg pottþétt. Það er í raun bara spurning hversu mikið það er. Læknirinn sýndi mér mynd af löppinni þegar hún var úr lið. Miðað við það sem sást á myndinni þá trúi ég ekki öðru en eitthvað sé brotið. Reyndar sagði læknirinn að ég væri rannsóknarefni ef ekkert væri brotið.“

Ólafur segir því vel ljóst að hann komi ekki til með að spila körfubolta á þessu tímabili en stefnir staðfastur að því að spila á því næsta. Það kemur auðvitað til með að fara eftir alvarleika meiðslanna hvenær hann getur snúið aftur á körfuboltavöllinn. „Ég tók þá ákvörðun strax að flýta mér ekki og taka aðeins eitt skref í einu í endurhæfingunni og sjá hvert það fleytir mér,“ sagði Ólafur. Alvarleiki meiðslanna kemur betur í ljós eftir sneiðmyndatöku sem ráðgert er að hann fari í eftir um viku. „Við höfum góð sambönd hjá bæklunarlæknunum. Eldri bróðir minn, Jóhann, er búinn að slíta bæði krossböndin og svo er Þorleifur hálf-fatlaður einhvern veginn,“ sagði Ólafur jafnframt og greinilega stutt í grínið hjá honum.

Kvaddi með hnefann á lofti

Öfgarnar milli þess þegar áhorfendur átta sig á hversu alvarlega Ólafur er meiddur og þess þegar hann er keyrður út úr Ásgarði í börunum voru ótrúlegar. Þögnin er allsráðandi þegar hann fellur í gólfið en þegar hann er keyrður út steytir Ólafur hnefann og blæs með því eldmóði í sína félaga sem áður höfðu staðið yfir honum á meðan hann var illa kvalinn. Grindvíkingar tóku það með sér næstu mínúturnar og spiluðu mjög vel.

Ólafur segir ekkert annað hafa komið til greina en að hvetja strákana áfram. „Ég vildi bara hvetja strákana. Ég gat ekki hugsað mér að við myndum tapa þessu og svo vildi ég bara vera með smá læti áður en ég færi út. Það hjálpaði mér líka að sjá alla standa upp og klappa, líka stuðningsmenn Stjörnunnar.“

Ólafur segir áfallið mikið að missa af úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. „Það var rosalega erfitt að horfa upp á það og taka því. Ég er búinn að bíða eftir þessu augnabliki síðan ég var gutti. Ég er búinn að horfa á það á spólum þegar Grindavík varð síðast Íslandsmeistari. Mig er búið að dreyma um það lengi að upplifa nákvæmlega það en svo hvarf sá möguleiki á einu augnabliki.“