Lárus Ásgeirsson
Lárus Ásgeirsson
Baldur Arnarson baldura@mbl.is „Þessi vottun styrkir stöðu okkar enn frekar. Smásalarnir fara fram á á þetta.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Þessi vottun styrkir stöðu okkar enn frekar. Smásalarnir fara fram á á þetta. Meira en helmingur af veltu okkar er í smásölu á Bretlandsmarkaði og þar er að finna kröfuharða kaupendur á borð við verslanakeðjurnar Tesco og Marks og Spencer. Við erum að mæta þeirra kröfum með þessari vottun,“ segir Lárus Ásgeirsson, forstjóri Icelandic Group, um þau tíðindi að fyrirtækið hefur fengið svokallaða MSC-vottun fyrir allar afurðir úr þorski og ýsu frá Íslandi óháð veiðarfærum.

Skammstöfunin stendur fyrir Marine Stewardship Council og mun allur þorsk- og ýsuafli af Íslandsmiðum fá heimild til að bera vottunarmerkið MSC. Segir í tilkynningu Icelandic Group vegna þess, að staðallinn sé sá víðtækasti og virtasti í heiminum yfir sjálfbærar fiskveiðar sem byggjast á vísindalegri ráðgjöf.

Umgengnin fær góða umsögn

Lárus segir aðspurður að vottunin sé gæðastimpill fyrir íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið.

„Vottunin felur í sér mjög jákvæða umsögn um kerfið og umgengni okkar Íslendinga við þessa mikilvægu auðlind. Hér er á ferð vottun sem horft er til um allan heim. Hvað viðskiptahliðina snertir hefur hún fyrst og fremst markaðslega þýðingu. Stórir viðskiptavinir okkar í Evrópu og Bandaríkjunum eru fyrst og fremst í smásölu. Það eru stórverslanirnar sem eru að kaupa fisk.

Margar þeirra hafa gert kröfu um vottun og er þar undirliggjandi sú almenna krafa hjá verslanakeðjum að vera eingöngu með vottaðar afurðir. Vottunin greiðir því fyrir aðgengi að verslunarkeðjum.

Ef við hefðum ekki þessa vottun gæti það takmarkað aðgengi okkar með fiskinn að þessum stóru keðjum. Icelandic mun veita útflytjendum á íslenskum fiski heimild til að nýta sér þessa vottun og hafa margir þeirra lýst yfir áhuga á að nýta sér það. Samfara þessari vottun heldur Icelandic Group áfram að styðja verkefnið Icelandic Responsible Fisheries sem snýst um ábyrgar fiskveiðar við Ísland og upprunavottun afurða af Íslandsmiðum.“

Horft til staðla FAO

Að sögn Lárusar er meðal annars stuðst við staðla Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) þegar lagt er mat á hvort skilyrði vottunarinnar séu uppfyllt.

„Í framhaldi af þeirri úttekt er gefin þessi vottun. Ísland skoraði mjög hátt á prófinu og stóðst það raunar með glæsibrag,“ segir Lárus.

Í lok síðasta árs var Icelandic Group með starfsemi á Íslandi, í Evrópu og Asíu og var heildarveltan um 87 milljarðar krónar. Starfsmenn félagsins voru um 1.600.