Fossgerði Nýja veiðihúsið, sem sést hér á tölvumynd, er hið glæsilegasta.
Fossgerði Nýja veiðihúsið, sem sést hér á tölvumynd, er hið glæsilegasta.
Nýtt veiðihús, sem fengið hefur nafnið Fossgerði, er að rísa við Selá í Vopnafirði. Húsið er 960 fermetrar og í því eru tíu stór herbergi fyrir veiðimenn auk góðrar aðstöðu fyrir starfsfólk.

Nýtt veiðihús, sem fengið hefur nafnið Fossgerði, er að rísa við Selá í Vopnafirði. Húsið er 960 fermetrar og í því eru tíu stór herbergi fyrir veiðimenn auk góðrar aðstöðu fyrir starfsfólk. Það stendur spölkorn neðan við Selárfoss og er útsýni úr öllum herbergjum yfir kunna veiðistaði í ánni. Þegar veiði hefst í Selá 22. júní verður húsið fullbúið og tekið í notkun.

„Þetta verður glæsileg aðstaða og húsið er á mjög fallegum stað við ána,“ segir Orri Vigfússon hjá Veiðifélaginu Streng ehf. Arkitekt hússins er Helgi Hjálmarsson og verkfræðihönnun annaðist Gústaf Vífilsson á Teiknistofunni Óðinstorgi. Heimamenn og fyrirtæki á Vopnafirði hafa séð um alla vinnu við byggingu hússins.

Strengur hefur gert nýjan tíu ára samning um Selá en áin hefur verið í fremstu röð síðustu ár. „Vegna þessa langa samnings geta veiðimenn nú sett nöfn sín á óskalista um veiðitíma í ánni næstu árin,“ segir Orri en Strengur hefur verið með ána síðan 1965. „Okkur hefur tekist glæsilega vel að margfalda veiðina í ánni. Við höfum gert margt gott, keypt upp netin á staðnum og samningar við Færeyinga um netauppkaup hafa líka hjálpað. Þá hafa verið byggðir fiskvegir sem hafa opnað 43 kílómetra fyrir laxinn upp um alla á þar sem hann getur hrygnt.“

Orri segir að við nágrannaánna í Vopnafirði, Hofsá, sem Strengur er einnig með, standi einnig yfir framkvæmdir. Verið er að endurnýja herbergi og bæta aðstöðuna í veiðihúsinu.