Guðjón Árni Sigurðsson fæddist á Kirkjubóli í Mosdal í Arnarfirði 17. apríl 1921. Hann andaðist á Hrafnistu 16. mars 2012.

Útför Guðjóns Árna fór fram frá Fossvogskirkju 27. mars 2012.

Ég vil minnast frænda míns Gauja, eins og hann var kallaður af þeim sem þekktu hann vel. Við áttum eitt sameiginlegt og mikið áhugamál en við vorum báðir safnarar og lögðum mikla vinnu og fé í þessa iðju. Og til marks um það átti Guðjón mjög stórt bókasafn sem mun vera með þeim stærri hér á landi.

Guðjón vann mörg störf um sína löngu ævi og allt vann hann af mikilli alúð og snyrtimennsku sem honum var svo ríkulega í blóð borin eins og er áberandi í okkar frændgarði vítt og breitt. Kynni mín af þeim Kirkjubólssystkinum voru mismikil, aðstæður þess tíma gerðu það að verkum, en öll voru þau sterkvönduð. Ég kveð frænda minn með broti úr ljóði; Minni Bíldudals eftir Sigfús Elíasson.

Himnesku klettar, þér háu fjöll,

hlýðið á boðskap þess nýja dags!

Um bláskyggðan vog, um blómavöll,

frá birtu morguns til sólarlags

andi Guðs boðar frá eilífðarheimi:

Enginn fortíðarvinum gleymi.

Og baráttan hörð vakti gleði með grönnum,

og glaðværir strákhnokkar urðu að mönnum.

Hér íklæddust holdi þær himnesku

dísir.

Um heimsbyggð af arnfirzkri menningu lýsir.

Ég heiti á Guð þessa lands – minna ljóða,

að lýsa upp hjörtun, að skapa hið góða,

að blessa þann stað, er vér gistum svo glaðir.

Það gulli sé letrað á klettanna raðir.

Jón Kr. Ólafsson, söngvari, Reynimel, Bíldudal.