Stefán Jónsson fæddist á Hofi á Eyrarbakka 19. janúar 1931. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Ljósheimum á Selfossi, 2. apríl 2012.

Foreldrar Stefáns voru Jón B. Stefánsson verslunarmaður f. 10. febrúar 1889, d. 19. apríl 1960 og Hansína Ásta Jóhannsdóttir húsmóðir f. 20. maí 1902, d. 13. mars 1948. Systkini Stefáns eru Ingibjörg d. 2006, Kristín d. 2005, Björgvin d. 1997, Margrét, Jóhann d. 1997. Stefán kvæntist 23.12. 1950 eftirlifandi konu sinni, Unni Sigursteinsdóttur. f. 4. júlí 1932. Foreldrar hennar voru Halldóra Gísladóttir og Sigursteinn Steinþórsson.

Börn Stefáns og Unnar eru:

a) Hansína Ásta f. 2.12. 1949, d. 24.6. 2007, gift Gissuri Jensen. Börn: 1) Stefán Róbert, kvæntur Sigrúnu Sigurðardóttur og eiga þau 2 börn og 1 barnabarn. 2) Axel Þór á 3 börn með Ásdísi B. Ingvarsdóttur. b) Jón Björgvin, f. 14.9. 1951, kvæntur Ásdísi J. Rafnar. Jón á 2 dætur með fyrrverandi eiginkonu, Þórunni H. Guðmundsdóttur. 1) Unnur Eva, gift Benedikt Jónssyni og eiga þau 3 börn, 2) Andrea Ósk, í sambúð með Þórhalli Ásbjörnssyni og eiga þau 2 börn. c) Sigmundur, f. 2.2. 1953, kvæntur Ingileifu Auðunsdóttur. Börn: 1) Þór, kvæntur Guðrúnu Rannveigu Stefánsdóttur og eiga þau 2 börn. Þór á dóttur með Drífu Heimisdóttur. 2) Linda Björk á 2 dætur með Stefáni Þór Hólmgeirssyni. d) Gísli, f. 2.2. 1953, kvæntur Guðrúnu Björnsdóttur. Börn: 1) Valur Fannar, kvæntur Margréti Einarsdóttur og eiga þau 3 börn. 2) Stefán er kvæntur Hörpu Lind Harðardóttur og eiga þau 2 syni. 3) Sonja, í sambúð með Þór Þórðarsyni. e) Dóra Sjöfn, f. 27.2. 1958, gift Óskari Jónssyni. Börn: 1) Jón Jökull, í sambúð með Pierre Marly 2) Birna, í sambúð með Úlfari Gíslasyni 3) Unnsteinn. 4) Anna Björg, f. 15.9. 1966, gift Bergi Tómasi Sigurjónssyni. Börn: 1) Sigurjón, kvæntur Aldísi Þóru Harðardóttur og eiga þau 1 dóttur. 2) Tvíburarnir Ívar Haukur og Unnur Dóra. Stefán ólst upp í foreldrahúsum á Hofi á Eyrarbakka þar til hann flutti á Selfoss 1946 vegna náms. Stefán og Unnur byggðu hús að Tryggvagötu 22. Stefán hóf nám í járnsmíði 1946, þá 15 ára gamall, og tók sveinspróf hjá KÁ. Fékk hann meistararéttindi árið 1955. Stefán starfaði sem járnsmiður hjá KÁ til ársins 1956 er hann réð sig til MBF. Stefán starfaði hjá MBF til ársins 1970. Stefán hóf störf hjá fiskvinnslufyrirtækinu Straumnesi á Selfossi 1971 og starfaði þar til ársins 1975 sem framkvæmdastjóri. Samhliða þeim störfum lauk Stefán matsmannsnámskeiði hjá sjávarútvegsráðuneytinu og öðlaðist réttindi fiskmatsmanns. Árin 1975 til 1977 starfaði Stefán hjá ráðuneytinu sem eftirlitsmaður. Stefán réðst til Glettings 1977 sem rekstrarstjóri á Selfossi og starfaði þar til 1981. Samhliða rekstri Straumness ráku þeir bræður Björgvin, Stefán og Jóhann fiskbúð í húsnæði Glettings á Selfossi. Stefán réðst til SÍF árið 1981 sem matsmaður og síðustu árin sem birgðastjóri á Granda og starfaði hann þar til ársins 1999 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Útför Stefáns fór fram frá Selfosskirkju 12. apríl 2012.

Elsku afi. Þegar ég sest niður og skrifa til þín kveðjuorð koma í hugann bara skemmtilegar og fallegar minningar. Ég var svo heppin að geta verið mikið hjá ykkur ömmu sem krakki á Selfossi á Tryggvagötunni og í Vallholtinu. Þar var margt brallað og sérstaklega þegar við komum saman krakkarnir. Anna Björg var stóra frænka og snillingur að leika í dúkkulísuleik og þá fuku eldhúsrúllurnar hjá ömmu, góðar minningar um það þegar „stóra frænka“ Axels og Þórs reyndi að siða þá frændur til. Þú hefur eflaust hlegið að því.

Þegar við fluttum í bæinn voruð þið flutt þangað líka og komuð oft í heimsókn. Þegar ég var unglingur flutti fjölskyldan til Virginíu og komuð þið amma í heimsóknir. Við gerðum margt skemmtilegt eins og að fara á tónleika með Tinu Turner, borða á veitingastöðum og sækja skemmtigarða, þú varst eins og lítill strákur. Man ég eftir þér úti í garði að raka lauf en alltaf komu þau aftur og þú varst farinn að grípa þau áður en þau féllu til jarðar, ég fylgdist með þér úr glugganum og þessi minning kemur oft í hugann og ég brosi, afi sigraði laufin.

Þegar ég flutti ein til Íslands að ganga í menntaskóla veittuð þið amma mér húsaskjól í tvo vetur. Þar var yndislegt að vera og varð mitt heimili þar til Benni kom inn í myndina. Þegar ég eignaðist mitt eigið heimili var alltaf jafngott að koma til ykkar og vel tekið á móti manni, yfirleitt heimabakað þar sem í uppáhaldi var sandkaka með osti (þú settir reyndar líka smjör), Mikka-mús eða rúsínuplokkuð jólakaka og þú fékkst þér renning með. Suma dagana hlýddirðu mér svo yfir vísuna „Frá Eyrarbakka út í vog, fjegur...“ þar sem þér var mikið í mun að hún gleymdist ekki og að segja fjegur eins og seytján. Seinni árin var ég hætt að hringja á undan mér svo umstangið yrði ekki of mikið þegar ég kæmi að hitta ykkur.

Þú barst alltaf mikla umhyggju fyrir mér og öllum ættingjum, það var einfaldlega þitt hjartans mál.

Þegar ég varð ólétt tókstu andköf því þér fannst ég of ung en þóttist svo sjálfur ekkert muna hvað þið amma voruð búin að eiga mörg börn á þeim aldri. Þú passaðir líka upp á að ég hugsaði um bílana mína og aðstoðaðir með allt sem þurfti. Lést mig finna hvað þér þótti vænt um að fá heimagerðar gjafir þótt það hafi bara verið prjónaðir sokkar.

Krakkarnir mínir nutu þeirra forréttinda að eiga langafa og langömmu. Sóley var oft hjá ykkur í pössun og Berglind var sérstaklega hrifin af þér, amma var stundum sár þegar hún vildi frekar vera hjá þér. Jón Steinar var líka mjög hrifinn af afalanga þótt hann væri ekki mjög langur. Þau segja stundum að tala „Selfoss“ og það eru orð sem ég segi og hljóma alveg eins og þú.

Elsku afi, núna veit ég að þú hefur fengið frið frá veikindum og ert kominn á góðan stað. Þakka þér allt sem þú hefur gert fyrir mig og allt sem þú hefur kennt mér.

Þín

Unnur Eva.