Broddi Jóhannesson, skólastjóri Kennaraskóla Íslands, fæddist að Litladalskoti í Skagafirði 21.4. 1916, sonur Jóhannesar Þorsteinssonar, kennara og bónda þar og að Uppsölum í Skagafirði, og k.h., Ingibjargar Jóhannsdóttur húsfreyju.

Broddi Jóhannesson, skólastjóri Kennaraskóla Íslands, fæddist að Litladalskoti í Skagafirði 21.4. 1916, sonur Jóhannesar Þorsteinssonar, kennara og bónda þar og að Uppsölum í Skagafirði, og k.h., Ingibjargar Jóhannsdóttur húsfreyju.

Bróðir Brodda var Jóhann Lárus, sem kenndi lengi við Menntaskólann á Akureyri og var bóndi á Silfrastöðum í Skagafirði.

Föðurforeldrar Brodda voru Þorsteinn, b. í Breiðagerði Lárusson, og Guðrún Jóhannesdóttir, systir Bjarna á Sveinsstöðum, föður Finnboga, verslunarstjóra á Akureyri, föður Eiríks Hreins, háskólakennara og borgarbókavarðar, föður Péturs J. Eiríkssonar, stjórnarformanns Portusar.

Fyrri kona Brodda var Guðrún Þorbjarnardóttir. Þau eignuðust sex börn en meðal þeirra eru Þorbjörn prófessor og Broddi fréttamaður.

Broddi lauk stúdentsprófi frá Mentnaskólanum á Akureyri 1935, en meðal samstúdenta hans þar voru þeir Ólafur Jóhannesson, síðar forsætisráðherra, og Bragi Sigurjónsson, síðar iðnaðar- og landbúnaðarráðherra skamma hríð.

Broddi lauk cand.phil.-prófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1936 og stundaði síðan nám í sálfræði, uppeldisfræði og heimspeki við háskólann í Tübingen í Þýskalandi 1937-38, og í München 1938-40. Þaðan lauk hann doktorsprófi í sálfræði 1940.

Broddi var kennari við Kennaraskóla Íslands 1941-62 og skólastjóri skólans 1962-75. Hann kenndi jafnframt víða annars staðar, s.s. við Menntaskólann á Akureyri áður en hann lauk doktorsprófi, og var stundakennari í lengri eða skemmri tíma við Iðnskólann í Reykjavík, Verslunarskóla Íslands, Húsmæðrakennaraskólann, Námsflokka Reykjavíkur, Bréfaskóla SÍS, heimspekideild Háskóla Íslands og Leiklistarskóla Þjóðleikhússins.

Broddi þýddi nokkur athyglisverð verk, en það merkilegasta er líklega Handbók Epiktets - Hver er sinnar gæfu smiður, útg, 1955 og tvívegis endurprentuð. Ritið hefur að geyma heilræði eftir gríska þrælinn og stóuspekinginn Epiktetos.

Broddi lést 10. september 1994.