Ragný Þóra Guðjohnsen
Ragný Þóra Guðjohnsen
Eftir Ragný Þóru Guðjohnsen: "Hugmyndir ungs fólks mótast oft af skerpu og næmleika fyrir því hvar breytinga er þörf í samfélaginu. Búum til vettvang fyrir ungt fólk og nýtum þær."

Síðastliðna áratugi hafa fræðimenn beint sjónum sínum að minnkandi áhuga og þátttöku ungs fólks í samfélaginu. Ísland hefur ekki farið varhluta af slíkri þróun og umræðu. Sjá má merki þessa í ákvæðum laga um grunnskóla þar sem kveðið er á um að í aðalnámskrá grunnskóla skuli leggja áherslu á „vitund nemenda um borgaralega ábyrgð og skyldur“ og „undirbúning undir virka þátttöku í samfélaginu“.

Þessi þróun hefur jafnframt, ekki síst í kjölfar bankahrunsins, leitt til aukinnar umræðu um mikilvægi þess að miðla þekkingu um lýðræði og samfélagsleg gildi til ungs fólks – allt sem þátt í því að efla vitund unga fólksins fyrir því sameiginlega verkefni borgaranna að byggja upp betra samfélag.

Virk þátttaka ungs fólks í samfélaginu getur meðal annars birst sem pólitísk þátttaka (í kosningum og félagslegum hreyfingum) en einnig í ýmiss konar félags- og æskulýðsstarfi án pólitískrar tengingar. Horfum til pólitísku þátttökunnar.

Kosningaþátttaka ungs fólks á Íslandi hefur lengst af verið mikil hér á Íslandi í samanburði við önnur lönd en jafnvel á þessu sviði má nú sjá vott af minnkandi þátttöku yngsta aldurshópsins (18-24 ára). Þá heyrast æ oftar athugasemdir frá ungu fólki á borð við: „Mér er sama!“, „Engum flokki eða stjórnmálamanni er treystandi!“ og „Ég nenni ekki að taka þátt því það skilar hvort eð er engu!“

Er ekki eitthvað sem þarf að endurskoða í samfélagi þar sem upplifun þeirra sem taka munu við stjórnartaumum samfélagsins er svona? Hvernig má skapa ungu fólki öflugri vettvang? Hvað þarf að gera til að raddir unga fólksins heyrist betur og á þær sé hlustað af sömu virðingu og annarra í samfélaginu?

Ungliðastarf stjórnmálaflokka er án efa einn vettvangur fyrir ungt fólk. Uppbygging starfsins skiptir þó lykilmáli. Skipulagið þarf að gefa tækifæri til þátttöku í að móta og ræða: framtíðarsýn, langtímamarkmið og gildi fyrir samfélagið. Ungt fólk hefur í áranna rás sýnt og sannað að það hefur vilja og kraft til að láta til sín taka og hugmyndir þess mótast oft af skerpu og næmleika fyrir því hvar breytinga er þörf í samfélaginu. Hlusta þarf eftir þessari rödd.

Í bók Gunnars Hersveins, Þjóðgildi, fjallar höfundur um mikilvægi kærleikans í nær- og fjærsamfélagi fólks og bendir jafnframt á skeytingarleysið sem andhverfu kærleikans. Hver kannast ekki við það skeytingarlausa samfélag sem Gunnar Hersveinn lýsir í bók sinni: Samfélag fárra reglna, hindrana og eftirlits. Samfélag þar sem hagsmunaaðilar fá tækifæri til að traðka á öðrum. Verkefni okkar Íslendinga í þessu efni eru ærin.

Ég hef trú á ungu kynslóðinni okkar. Ég hef trú á að hún stígi fram í virkri lýðræðislegri þátttöku og leggi sitt af mörkum við að móta og bæta samfélagið okkar. Samfélag sem þarf meðal annars að bregðast við auknu atvinnuleysi ungs fólks, minnkandi tækifærum þess til þess að eignast eigið húsnæði og framfærsluvanda.

Samstaða flokkur lýðræðis og velferðar mun á næstunni halda stofnfund ungliðahreyfingar flokksins í Fjörukránni Hafnarfirði. Stofnfundurinn verður auglýstur nánar á vefsíðu flokksins www.xc.is og hvet ég allt ungt fólk til að mæta og láta til sín taka.

Höfundur er lögfræðingur, doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og situr í stjórn Samstöðu, flokks lýðræðis og velferðar.