Jón Marinó fæddist í Keflavík 21. september 1930. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Garðvangi í Garði 1. apríl 2012.

Útför Jóns fór fram frá Keflavíkurkirkju 10. apríl 2012.

Nonni minn, þín er sárt saknað og ekki síst af mér sem hef verið vinur þinn frá sex ára aldri. Leiðir okkar hafa legið saman síðan þá. Við vorum fermingarbræður og alla tíð sem fóstbræður.

Söngurinn styrkti tengslin á milli okkar enn betur. Þú hafðir þessa hljómþýðu bassarödd sem naut sín vel bæði í einsöng og samsöng.

Við vorum stofnfélagar í Karlakór Keflavíkur árið 1953 og þar sungum við saman í um 50 ár.

Á 10 ára afmæli kórsins vorum við valdir í kvartett í tilefni árshátíðar kórsins. Kvartettinn starfaði lengi eftir þetta og nefndum við okkur Keflavíkurkvartettinn. Hann söng víða um landið við ýmis tilefni og einnig við ýmsar kirkjuathafnir.

Alla tíð var mikið samband milli okkar og fjölskyldna okkar enda bjuggum við hvor nálægt öðrum. Veiðitúrar voru líka snar þáttur í frístundum okkar.

Það er margs að minnast á langri ævi.

Að lokum viljum við hjónin votta Sonju og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð.

Guð blessi ykkur.

Haukur Þórðarson

og Magnea Aðalgeirsdóttir.