Uppsetning Útskriftarsýning Listaháskóla Íslands verður opnuð í dag.
Uppsetning Útskriftarsýning Listaháskóla Íslands verður opnuð í dag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skýjavél, rafmagnskappakstursbíll, saltframleiðsla í nýju formi, áningarstaður pílagríma, málverk séð úr Hörpu, hljóðverk, gjörningar, grammófónn og róla, vídeóverk um guðeindina, fylgihlutir, tilraunir með lanólin, veftímarit um upprennandi listamenn...

Skýjavél, rafmagnskappakstursbíll, saltframleiðsla í nýju formi, áningarstaður pílagríma, málverk séð úr Hörpu, hljóðverk, gjörningar, grammófónn og róla, vídeóverk um guðeindina, fylgihlutir, tilraunir með lanólin, veftímarit um upprennandi listamenn og hönnuði, letur í beinum og það nýjasta úr tískunni. Þetta og margt fleira getur að líta á útskriftarsýningu nemenda myndlistardeildar og hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskólans sem opnuð verður í dag, laugardag, kl. 14.00 í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, en sýningin er unnin í samvinnu við Listasafn Reykjavíkur.

Verk nemenda á sýningunni eru afrakstur þriggja ára náms við Listaháskólann þar sem markmiðið hefur verið að skapa nemendum aðstöðu til að mennta sig sem listamenn og gera þá reiðubúna til að takast á við víðtæk viðfangsefni á skapandi og gagnrýninn hátt með forvitni, áræði og framsækni að leiðarljósi.

Sýningarstjóraspjall verður hinn 22. apríl kl. 15:00 – frá myndlistardeild og 29. apríl kl. 15:00 frá hönnunar- og arkitektúrdeild. Hægt er að panta leiðsögn fyrir hópa í síma 590-1200. Sýningin stendur til 6. maí og er opin daglega frá 10.00-17.00 og á fimmtudögum frá 10:00-20:00. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.