Um lúpínugötur Ferðahópur úr Hafnarfirði kemur niður af Haukadalsheiði. „Ég læt mig dreyma allan veturinn um að komast í að minnsta kosti eitt svona hestaferðalag á ári,“ sagði Margrét Tryggvadóttir, einn Sörlafélaga.
Um lúpínugötur Ferðahópur úr Hafnarfirði kemur niður af Haukadalsheiði. „Ég læt mig dreyma allan veturinn um að komast í að minnsta kosti eitt svona hestaferðalag á ári,“ sagði Margrét Tryggvadóttir, einn Sörlafélaga. — Morgunblaðið/Sigurður Sigmundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Hestamenn standa í stöðugri baráttu fyrir því að fá fjármagn til endurbóta og nýbygginga á reiðvegum og halda umferð vélknúinna ökutækja frá. Unnið er að skráningu og flokkun reiðleiða og birtingu í kortasjá.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Hestamenn standa í stöðugri baráttu fyrir því að fá fjármagn til endurbóta og nýbygginga á reiðvegum og halda umferð vélknúinna ökutækja frá. Unnið er að skráningu og flokkun reiðleiða og birtingu í kortasjá. Tilgangurinn með þessu starfi er að hægt sé að fara um landið án þess að valda skemmdum á náttúru þess.

Þorri hestamanna hefur hestamennsku sem sitt helsta áhugamál. Keppnis- og ræktunarmennirnir sem sýna og keppa á mótum eru aðeins lítill hluti hópsins þótt þeir haldi merkinu á lofti og séu meira áberandi. Hestaferðalög eru efst á dagskránni hjá mörgum hestafjölskyldum og er jafnvel farið í tvær til þrjár ferðir á sumri. Föstu punktarnir eru sleppiferðin á vorin og miðsumarsferðin.

Sumir ferðahópar fara saman ár eftir ár og hittast nokkrum sinnum um veturinn til að skipuleggja ferðirnar. Um þessar mundir eru margir að ganga frá síðustu atriðunum enda víða orðið fullt á gististöðum við vinsælar þjóðleiðir.

Hluti af íslenskri náttúru

„Við áttum okkur ekki alltaf á því hvílík forréttindi við búum við hér á Íslandi að geta notið náttúrunnar og eigum að standa vörð um það. Hesturinn hefur alltaf verið og er hluti af íslenskri náttúru,“ segir Haraldur Þórarinsson, formaður Landssambands hestamannafélaga (LH). Hann vekur athygli á því að úti í Evrópu sé víða orðið vandamál að ríða um náttúruna vegna lokunar á einkalöndum og einkaskógum.

Hér á landi eru fjölmargar leiðir opnar fyrir hestafólk, fornar þjóðleiðir og reiðvegir, auk almenna vegakerfisins. Samgöngunefnd LH og hestamannafélögin um allt land vinna stöðugt að því að endurbæta og byggja nýja reiðvegi til að hestamenn þurfi sem minnst að nota þjóðvegina og geti farið um án þess að skaða náttúruna. Halldór H. Halldórsson, formaður nefndarinnar, segir að ætlaðar séu 60 milljónir til þessa verks á fjárlögum ríkisins í ár. Upphæðin hrekkur skammt því hestamannafélögin sækja um 300 milljónir til verkefna sinna. „Þetta er ekki stór fjárhæð í ljósi þess að hestatengd ferðaþjónusta skilar þjóðarbúinu 25 milljörðum í tekjur á ári,“ segir Halldór.

Það fé sem hestamannafélögin fá til að sinna verkefnum fyrir almenna félagsmenn hefur verið af skornum skammti vegna þess að peningana hefur þurft að nota til að lagfæra fjölfarnar ferðaleiðir. Í ár verður í fyrsta skipti tekið frá fé í slíkar stofnleiðir, áður en úthlutað er til félaganna. Þjóðleiðin vestur Mýrar, „með múlum“, og niður á Löngufjörur er meðal þeirra stofnleiða sem ætlunin er að styrkja sérstaklega.

Umferð torfæruhjóla og annarra vélknúinna ökutækja á reiðvegum er ein helsta ógnin við notkun þeirra. Halldór bendir á að hross fælist við hávaða og læti. „Flestir þessir mótorhjólamenn stoppa og víkja þegar þeir mæta hestum. Þeir skemma hins vegar reiðvegina, skilja eftir för sem valda því að það fer að renna úr í leysingum,“ segir Halldór.

Þótt það sé almennt viðurkennt að bannað sé að fara með vélknúin ökutæki á reiðvegi hefur það verið stundað. Hestamenn hafa lagt til að kveðið verði afdráttarlaust á um þetta bann við breytingar á umferðarlögum sem Alþingi fjallar nú um.

Kortasjá byggð upp

Samgöngunefnd LH hefur unnið að því undanfarin ár að koma upp gagnagrunni um reiðleiðir í svokallaðri kortasjá sem hægt er að nálgast á vef samtakanna, lhhestar.is. Þar eru leiðirnar teiknaðar inn á loftmynd og settir inn gps-punktar. Einnig eru settir inn skálar en til stendur að gera þjónustunni mun betri skil í framtíðinni.

Búið er að merkja inn leiðir á Suðvesturlandi og undirbúningur fyrir Norðvesturland kominn vel á veg. Vinnan liggur hins vegar niðri eins og er, vegna fjárskorts. Halldór Halldórsson tekur fram að aðeins séu tilgreindar leiðir sem sýndar eru í aðalskipulagi viðkomandi sveitarfélaga.

Kortasjáin er eitt af þeim gögnum sem hestamenn nota við skipulagningu sumarferða. „Þetta er mikið nýtt og er alltaf að aukast,“ segir Halldór. Ferðahóparnir nota einnig ferðabækur af ýmsu tagi. Nýjasta viðbótin er bók Jónasar Kristjánssonar, 1001 þjóðleið, sem kom út fyrir jólin og er hafsjór af upplýsingum um hestaleiðir.

Þar sem maður hefur farið þar hefur farið hestur

• Gagnrýna lokun Vonarskarðs • Hreinsa upp hey og tað

„Ég get tekið undir það með Jónasi Kristjánssyni að besta leiðin til að viðhalda fornum þjóðleiðum er hæfileg notkun þeirra. Þær eru markaðar eftir hófa hestanna um aldir,“ segir Halldór H. Halldórsson, formaður samgöngunefndar Landssambands hestamannafélaga. Nokkur umræða hefur orðið um sambýli hests og náttúru eftir að Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður, meðal annars vegna þess að þá var lokað fyrir umferð ríðandi fólks um Vonarskarð og fleiri staði.

Vonarskarð er ekki fjölfarin reiðleið en hestamenn hafa eigi að síður haldið fram kröfum sínum um að mega fara þar um eins og gert hefur verið um aldir. Þá fór það illa í suma þegar það spurðist út að hópi hestamanna sem áði við Öskju var gert að hreinsa upp heyafganga og hrossatað úr næturhólfinu.

Tveimur hópum sem fóru Gæsavatnaleið á síðasta sumri var fyrirskipað að fjarlægja skít og hey úr næturhólfum sem þeir settu upp innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Hermann Árnason sem fór fyrir fyrri hópnum segist hafa unnið þetta eftir bestu getu, í samstarfi við landverðina, þótt honum hafi ekki þótt öll skilyrðin jafnskynsamleg.

Sækja þarf um leyfi til þjóðgarðsins ef fara á með 20 hesta eða fleiri í hóp um svæði hans. Hestamenn hafa viljað rýmka þau mörk og nú hafa verið settar fram tillögur um að miða við 45 hesta svo venjulegir ferðahópar geti farið um. Þórður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, tekur fram að engin skilyrði séu í reglum þjóðgarðsins um að hreinsa þurfi upp hey og skít. „Þetta voru fyrstu stóru ferðirnar, eftir að þjóðgarðurinn varð til, og við vildum hafa varann á. Hugsunin er sú að með heyi og taði kunni menn að vera að flytja með sér annan gróður,“ segir Þórður og bendir á að þessi svæði séu einstök og hafi gildi á heimsvísu. Hann tekur fram að eðlilegt sé að menn hreinsi eftir sig og það sé ekki ofverkið, í flestum tilvikum séu hestahóparnir með bíla til að flytja heyið og geti tekið leifarnar með sér til baka.

„Það er sjálfsagt að ganga vel um en erfitt er fyrir fólk sem er að njóta hestsins úti í náttúrunni að lúta slíkum öfgareglum,“ segir Haraldur Þórarinsson, formaður LH, og bendir á að enginn gróður þrífist í þessari hæð og engin hætta á að aðkominn gróður nái sér þar á strik.

Þórður reiknar með að í ljósi reynslunnar frá síðasta sumri verði unnt að slaka frekar á kröfum næst þegar hestahópar fara þarna um.

Haraldur telur það með ólíkindum að verið sé að berjast á móti umferð hesta á ákveðnum svæðum í nafni náttúruverndar og vísar þar sérstaklega til Vonarskarðs. „Þar sem maður hefur farið um hálendið, þar hefur farið hestur. Maður og hestur fóru alltaf saman,“ segir Haraldur.

Rannsókn á þoli svæða

Þegar Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra samþykkti tillögur að stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs ákvað hún, væntanlega vegna gagnrýninnar sem kom fram á tillögurnar, að efna til viðbótarsamráðs við hagsmunaaðila um samgöngumál garðsins. Starfshópur hefur farið yfir kerfið í heild og komið fram með ýmsar tillögur.

Ágreiningur er enn um tvær leiðir sem stjórn þjóðgarðsins ákvað að loka, Vikrafellsleið og Vonarskarð. Starfshópurinn lagði til að gerð yrði svokölluð þolmarksrannsókn til að athuga áhrif umferðar á þessi svæði. Að henni lokinni verður metið hvort ástæða þykir til að breyta þessum ákvörðunum.

Eins og utanlandsferð

„Það er samneyti við hestinn, útivera og upplifun náttúrunnar – og svo félagsskapurinn,“ segir Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri Bláskógabyggðar og félagi í ferðahópnum Víðförla, spurður um hvað hann fengi út úr hestaferðum um hálendi landsins. Hópurinn hefur ferðast saman í um þrjátíu ár og ekki eru margar hestaleiðir á Suður- og Suðvesturlandi sem þeir félagar hafa ekki farið og sumar oft.

Undirbúningur ferðanna hefst á haustin eða snemma vetrar. Þá leggur ferðanefnd sem kosin hefur verið fram hugmyndir að tveimur eða þremur ferðum sem valið er úr og reynt að finna heppilega tímasetningu. Venjan er að fara seinnihluta júnímánaðar. Það eru margir bændur í hópnum og þeir fara að detta út vegna heyskapar ef ferðirnar dragast fram í júlí. Svo er aukinn þrýstingur á landsmótsárum, að ljúka ferðinni fyrir mót,“ segir Valtýr. Áfram er unnið að undirbúningi. Ráða þarf matráð og menn til að sjá um trúss. „Síðan þarf maður að þjálfa hrossin og sjálfan sig.“

Hópurinn hittist þrisvar til fjórum sinnum yfir veturinn. Fer saman í ferðir og útreiðatúra til upphitunar og saman út að borða, allt til að lyfta andanum í hópnum.

Í hestaferðum Víðförla eru oft 14 til 18 félagar, hver með þrjú til fjögur hross.

„Uppistaðan í hópnum er fólk sem er fætt og uppalið í sveit. Meðvitund um náttúruna og góð umgengni er þeim í blóð borin,“ segir Valtýr þegar hann er spurður um sýn sína á umhverfismálin. Hann tekur fram að taka þurfi tillit til aðstæðna þegar farið er með hesta um viðkvæmt land og ekki ætla sér of mikið og jafnvel að teyma. Þá sé rétt að forðast viðkvæmustu svæðin. „Við höfum mikla reynslu af þessu. Maður tekur ekki með sér ung hross og aðeins eitt sem ekki er vant ferðum. Ef ekki er rekið of mikið á eftir mynda hrossin fljótt lestina.“

„Þetta er eins og utanlandsferð, tæplega þó,“ segir Valtýr um kostnað við hestaferð. Greiða þarf fyrir matráð og hráefni og kostnað við rekstur trússbíla. Allt er þetta hófleg hjá Víðförla enda leggja félagsmenn mikið til sjálfir.