Helgi Laxdal
Helgi Laxdal
Eftir Helga Laxdal: "Hræddur er ég um að framlag of margra þingmanna til vitrænnar umræðu á þingi sé harla rýrt og til viðbótar sennilega neikvætt, hjá alltof mörgum."

Fimmtudaginn 29. mars sl. stóð fundur á Alþingi til miðnættis; þar var fjallað um ráðgefandi þjóðaratkvæði vegna endurskoðunar á stjórnarskrá lýðveldisins. Fyrir lá að ljúka þyrfti afgreiðslu málsins fyrir miðnætti ef takast ætti að sameina þjóðaratkvæðagreiðslu væntanlegu kjöri forseta Íslands.

Skemmst er frá að segja að ef þingið hefur einhvern tíma orðið sér til skammar fyrir hreinan leikaraskap þá var heldur betur bætt um betur við þessa umræðu.

Hvert stórstirnið á fætur öðru, úr Sjálfstæðisflokknum, kom í pontu til þess að tala án þess að hafa nokkurn skapaðan hlut að segja um efnið sem gæti leitt til aukins skilnings á því eða þeim málstað sem stærsti flokkur þjóðarinnar telur sig standa vörð um. Því miður var allt hjalið eitt stórt, af því bara.

Formáli og hinn lýðræðislegi réttur

Einn ágætur þingmaður, sem Bragi fornbókasali Kristjánsson hefur lýst einhvern veginn á þann veg að hann sé eins og roskin virðuleg kona í peysufötum þegar hann kemur í pontu þingsins. Sá hinn sami hefur flestar sínar ræður með spenntar greipar og þrungið augaráð og segir að þar sem málið beri að með þessum hætti þá sé nú eiginlega alveg ómögulegt annað en að leggjast gegn því þó að hann geri ekki minnstu tilraun til þess að skýra hvað hann á við, formálinn ásamt hefðbundinni leikrænni tjáningu er bara fast upphaf hverrar ræðu sem hann flytur.

Sami þingmaður lýsir því gjarnan einnig yfir að viðkomandi mál sem hann leggst gegn sé svo illa unnið að það eitt og sér sé næg ástæða til þess að hafna því.

Einn af betri þingmönnum flokksins lýsti því, á sama fundi, með miklu handapati og andlitsgrettum eftir að honum hafði verið bent á þá staðreynd að ljúka þyrfti atkvæðagreiðslu um málið fyrir miðnætti, að þingmenn hefðu þann helga rétt að mega tala í hverju máli eins oft og þá lysti.

Í fyrsta skipti í 20 mín., það næsta 10 mín. og síðan eins oft og þeir kysu, 5 mín. í hvert sinn. Þessi heilagi lýðræðislegi réttur yrði sko ekkert af þeim tekinn; allar hugmyndir í þá veru væru í andstöðu við þessi lýðræðislegu réttindi þingmanna. Af máli þessa annars ágæta þingmanns, sem er með þeim bestu í liði íhaldsins, mátti helst ráða að það sem sagt væri skipti ekki öllu máli heldur hitt að hann fengi að tala sinn útmælda tíma. Það væri hans helgi réttur sem ekki mætti skerða á nokkurn hátt.

Það skipti því engu máli þótt um viðkomandi þingmál yrðu ekki greidd atkvæði í tæka tíð þannig að vilji meirihlutans á Alþingi kæmi í ljós sem er jú forsenda lýðræðisins. Framar öllu var að hann og þeir aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar fengju að tala eins oft og lengi og þrekið leyfði. Hvað sagt var væri aukaatriði.

Prik Framsóknar

Að undanförnu hefur Framsóknarflokkurinn nú ekki fengið mörg né stór prik frá mér en við þessa umræðu fékk hann eitt nokkuð efnismikið fyrir það eitt að hafa ekki tekið þátt í þessu steingelda sjónarspili. Engu að síður er ég sannfærður um að það hefur verið margri blaðurskjóðunni í þeim flokki mikil andleg áþján að sitja hjá og neita sér um að fara í pontu og taka þátt í blaðrinu með froðukúfa í báðum munnvikum þegar gengið yrði til sætis á ný.

Með þessum orðum er ég síður en svo að halda því fram að núverandi stjórnarandstaða, nefndra flokka, sé mikið öðruvísi en hún var þegar þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon voru í stjórnarandstöðu; þó að mér finnist að stjórnarandstöðunni hafi heldur hrakað á liðnum árum því hér áður fyrr höfðu margir þingmenn skemmtilegan húmor sem leiddi til þess að það gat verið gaman að hlíða a.m.k. á suma þeirra. Í dag er hjalið bæði innihaldslaust og til viðbótar hundleiðinlegt.

Oft var þörf en nú er nauðsyn

Þingmenn hafa oft langt mál um að rannsaka þurfi nú hitt og þetta og skipa til þeirra verkefna nefndir sem eiga að leiða fram hvað gera þurfi til þess að koma skikk á viðkomandi mál.

Mín skoðun er að brýnasta verkefnið fram undan sé skoðun og greining á störfum Alþingis. Fara þarf m.a. í gegnum ræður þingmanna af kunnáttufólki og greina um hvað þær fjölluðu, hvort og þá hversu mikið var efnislegt innlegg sem auðveldaði þingheimi að taka upplýsta ákvörðun um viðkomandi mál.

Hræddur er ég um að niðurstaðan myndi leiða í ljós að framlag of margra þingmanna til vitrænnar umræðu á þingi sé harla rýrt og til viðbótar sennilega neikvætt, hjá alltof mörgum.

Höfundur er vélfræðingur og fyrrv. yfirvélstjóri.