Ragnar Stefánsson
Ragnar Stefánsson
Eftir Ragnar Stefánsson: "Það þarf að útvíkka skjálftamælingakerfið okkar, SIL-kerfið, til að nema og meta upplýsingar frá smáskjálftum á Snæfellsnesi."

Ábendingar frá Haraldi Sigurðssyni eldfjallafræðingi um nauðsyn jarðskjálftamælinga á Snæfellsnesi eru orð í tíma töluð. Það þyrfti að setja upp jarðskjálftamæla á Snæfellsnesi af svokallaðri SIL-gerð og stefna að því, að með SIL-mælakerfinu, verði unnt að mæla jarðskjálfta þarna allt niður í Richters-stærðina 0.

Til að gera sér í hugarlund hvað skjálftastærðin 0 er má hugsa sér að slíkir skjálftar komi frá misgengissprungum sem eru um 100 metrar á kant og að misgengishreyfing við slíkan skjálfta sé um hundraðasti hluti úr millimetra.

Þótt fólk finni ekki slíka smáskjálfta gefa þeir okkur bestar upplýsingar um hvað er að gerast djúpt niðri í jarðskorpunni áður en stórir jarðskjálftar bresta á og verða því, ef vel er fylgst með þeim og lesið stöðugt úr þeim á vísindalegan hátt, mikilvægasti grunnur þess að geta varað við stórum skjálftum áður en þeir bresta á.

Rannsóknir hafa sýnt að jarðskjálftasprungur, allavega hér á landi, byrja að mjakast djúp niðri í jarðskorpunni eða neðan við hana, löngu áður en stór skjálfti brestur á. Háþrýstar kvikur skjótast upp í jarðskorpuna að neðan vegna þessarar djúpu sprunguhreyfingar. Þær veikja smám saman samloðun á gömlum jarðskjálftasprungum, veikja þær og gefa okkur um leið merki um, með smáskjálftum, hvað er að gerast þarna niðri.

Þetta er í raun mjög svipað og gerist í löngum aðdraganda eldgosa. Kvikuhreyfingar verða djúpt niðri sem eru svo smáar að þeirra verður ekki vart nema með afar næmum mælum og þá helst með jarðskjálftamælingum. Fyrstu jarðskjálftarnir sem unnt er að mæla vel og geta gefið okkur vísbendingar og rannsóknargögn eru af stærðinni 0 eða svo.

Gosið í Heimaey

Þegar Heimaeyjargosið hófst klukkan 2 eftir miðnætti aðfaranótt 23. janúar 1973 kom það án þess að nokkrar viðvaranir hefðu verið gefnar út. Samkvæmt mælingum á jarðskjálftamælum uppi á landi urðu þó jarðskjálftar þarna djúpt niðri í rúmlega sólarhring á undan, mest á dýpi allt niður í 20 km. Mælitæknin þá var ekki með þeim hætti að unnt væri að staðsetja þessa skjálfta fyrr en með rannsókn eftir að gosið var byrjað. Það er líklegt að með betri tækni og meiri næmni mæla hefði verið hægt að átta sig á undanfara gossins miklu lengur, vel áður en það byrjaði.

Í Heimaey, eins og á Snæfellsnesi nú, var ekki reiknað með að eldgos væru mjög líkleg, og oft var talað um Helgafellið sem svokallaða útdauða eldstöð.

Eins og Haraldur bendir á er nauðsynlegt að útvíkka núverandi landskerfi jarðskjálftamælinga á Íslandi, svokallað SIL-kerfi, til að geta numið og unnið sjálfvirkt úr jarðskjálftum niður í stærðina 0 á Snæfellsnesi. Fyrir utan það að geta verið hluti af mikilvægu vöktunarkerfi til öryggis fyrir íbúa svæðisins væri þetta mikilvægt fyrir þekkingu á eðli og ferlum í jarðskorpunni undir okkur.

Það má líka benda á að Árni Stefánsson, augnlæknir og hellafræðingur, hefur verið að opna Vatnshelli við Snæfellsjökul fyrir ferðafólki til skoðunar. Upplagt væri að einn slíkur jarðskjálftamælir væri í eða við þennan helli til að ferðamenn gætu skoðað í leiðinni niðurstöður úr þessu merkilega mælingakerfi sem SIL-netið er.

SIL-kerfið

SIL kerfið er nefnilega heimsfrægt mælingakerfi fyrir smáskjálfta.

Þegar jarðskjálftaspárannsóknir hófust á Íslandi á skipulegan hátt um 1988 var lögð megináhersla á að byggja upp sjálfvirkt mælingakerfi til að geta numið skjálfta allt niður í stærðina 0 og unnið samstundis upplýsingar úr þeim um hvað sé að gerast þarna niðri á hverjum tíma.

Þetta var kallað SIL-kerfið, sem er skammstöfun á Södra Islands Lågland sem er sænska og þýðir Suðurlandsundirlendið, enda voru fyrstu stöðvarnar í kerfinu á svæði Suðurlandsskjálftanna. Sænskan var notuð í þessari skammstöfun, enda vorum það við í samstarfi við fólk annars staðar á Norðurlöndum, ekki síst í Svíþjóð, sem afrekuðum þetta.

Í seinni tíð eftir að þetta kerfi hefur öðlast heimsfrægð höfum við útskýrt skammstöfunina á ensku, South Icelandic Lowland.

SIL-kerfið þarf að útvíkka til að nema og meta upplýsingar frá smáskjálftum á Snæfellsnesi. Þetta hefur lengi verið á óskalista jarðváreftirlitshópsins á Veðurstofunni. Vel rökstuddar ábendingar Haraldar eru sannarlega mikils virði til þrýsta á um þetta.

Höfundur er jarðskjálftafræðingur og prófessor á eftirlaunum við Háskólann á Akureyri.