Í slipp Víkingur AK 100 var smíðaður í Þýskalandi fyrir rúmlega hálfri öld eins og Lundey NS og Sigurður VE.
Í slipp Víkingur AK 100 var smíðaður í Þýskalandi fyrir rúmlega hálfri öld eins og Lundey NS og Sigurður VE. — Morgunblaðið/Kristinn
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Stjórnir Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Félags skipstjórnarmanna mótmæla frumvörpum um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Stjórnir Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Félags skipstjórnarmanna mótmæla frumvörpum um stjórn fiskveiða og veiðigjöld. Segir í umsögn að verði þau að lögum muni þau viðhalda og jafnvel auka ósætti innan greinarinnar. Með skerðingu aflaheimilda muni kjör sjómanna versna verulega og leigubrask, sem stjórnvöld ætli að takast á hendur, muni aukast. Þetta sé fráleitt framferði gagnvart einni starfsstétt og sýni í hnotskurn hvaða hug stjórnvöld beri til greinarinnar.

Í umsögninni segir: „Fyrrverandi fjármálaráðherra / núverandi sjávarútvegsráðherra lýsti því yfir fyrir u.þ.b. ári að á þeim tíma hefði skapast gríðarleg, undirliggjandi uppsöfnuð endurnýjunar- og viðhaldsþörf hjá fiskiskipaflotanum, vegna langvarandi óvissu um stjórn fiskveiða. Nú hampar þessi sami ráðherra frumvörpum sem við blasir að leiða muni til grafalvarlegrar stöðu þar sem bráðnauðsynleg endurnýjun flotans er slegin út af borðinu og viðhaldi allt of gamals flota verður haldið í algjöru lágmarki. Í stað aukins öryggis og betri aðbúnaðar sjómanna munu menn sjá fram á hið gagnstæða, með margvíslegum neikvæðum afleiðingum.“

Engin rök fyrir sérstöku veiðigjaldi

Í umsögn Sjómannasambands Íslands segir að sambandið hafi til þessa verið mótfallið veiðigjaldi í formi auðlindagjalds. Eðlilegt sé að útgerðin greiði hóflegt veiðigjald til að standa straum af kostnaði við stofnanir ríkisins á sviði fiskveiðistjórnunar og sjávarútvegs, en að öðru leyti séu engin rök fyrir sérstöku veiðigjaldi á útgerðina að mati Sjómannasambands Íslands.

Þá telur sambandið reiknaða ávöxtun rekstrarfjármuna of lága og skattlagninguna á umframrentuna of háa til að útgerðin geti staðið undir veiðigjaldinu.

Varað við ofurskattlagningu

Í umsögn Félags vélstjóra og málmtæknimanna er það harmað að ekki liggi fyrir nægilega glöggir útreikningar og útfærslur á gjöldunum, áhrifum þeirra á efnahag fyrirtækja í veiðum og vinnslu og samfélagsins alls til framtíðar. Félagið lýsir þungum áhyggjum af því að gjaldið verði tekið af launum sjómanna og leggur til að Verðlagsstofa skiptaverðs verði efld og hlutverk stofnunarinnar um eftirlit og upplýsingagjöf um afurðaverð erlendis verði tryggt til að tryggja að eðlilegt afurðaverð skili sér til landsins.

VM er sammála því að gjöld séu lögð á veiðar og vinnslu sem afgjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, allir útreikningar á auðlindagjaldinu séu hins vegar ofreiknaðir og allt of háir vegna, vonandi, tímabundins veikleika krónunnar, eins og segir í umsögninni. Félagið varar við að ofurskattlagning geti skaðað atvinnugreinina.

AUÐLINDAGJALD AF SAMA MEIÐI OG KOLEFNISSKATTURINN?

Launakjör verði leiðrétt

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness getur ekki undir nokkrum kringumstæðum stutt frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjald á meðan ekki hefur farið fram ítarleg rannsókn á hvaða áhrif þau hefðu á atvinnuöryggi og kjör fiskvinnslufólks, sjómanna og síðast en ekki síst á byggðir þessa lands, segir í umsögn félagsins og er hvatt til slíkrar rannsóknar.

„Það er mat félagsins að það svigrúm sem útgerðin hefur verði notað til að lagfæra og leiðrétta launakjör fiskvinnslufólks, en þau eru verkalýðshreyfingunni, Samtökum atvinnulífsins og útgerðinni til ævarandi skammar. Stjórn Verkalýðsfélags Akraness veltir því fyrir sér hvort fyrirhugað auðlindagjald sé af sama meiði og kolefnisskatturinn, sem átti m.a. að leggja á Elkem á Íslandi fyrir áramót, en sú skattlagning stefndi atvinnuöryggi þeirra sem þar störfuðu í algjöra óvissu eins og frægt var,“ segir í umsögninni.