Jarðepli Kartöflurnar eru á þrotum og byrjað að flytja inn erlendar. Glænýjar íslenskar koma aftur í lok júlí.
Jarðepli Kartöflurnar eru á þrotum og byrjað að flytja inn erlendar. Glænýjar íslenskar koma aftur í lok júlí. — Morgunblaðið/Golli
Birgðir af íslenskum kartöflum frá síðasta hausti eru nokkurn veginn gengnar til þurrðar og byrjað að flytja inn erlendar. Ástæðan er sú að uppskera brást eða var lélegri en í meðalári í mikilvægum kartöfluræktarhéruðum.

Birgðir af íslenskum kartöflum frá síðasta hausti eru nokkurn veginn gengnar til þurrðar og byrjað að flytja inn erlendar. Ástæðan er sú að uppskera brást eða var lélegri en í meðalári í mikilvægum kartöfluræktarhéruðum.

Innlenda uppskeran hefur stundum dugað þar til nýjar íslenskar koma á markaðinn um mitt sumar. Guðni Hólmar Kristinsson hjá Sölufélagi garðyrkjumanna segir þó að flest undanfarin ár hafi þurft að flytja inn kartöflur í júní og júlí. Hann segir að nú séu ákveðin skil, birgðir almennt á þrotum þótt einhverjir framleiðendur kunni að eiga eitthvað eftir. Innfluttar kartöflur ættu að vera komnar í búðir.

Bergvin Jóhannsson, formaður Landssambands kartöflubænda, segir að framleiðendum sé sífellt að fækka og þótt aðrir stækki við sig minnki heildarframleiðslan. Þá segir hann að uppskeran hafi ekki verið nægilega góð á síðasta sumri. Þannig hafi uppskeran í Eyjafirði verið innan við helmingur af meðalársuppskeru og aðeins sæmileg uppskera í Þykkvabænum. Betur hafi gengið í Villingaholtshreppi og Hornafirði.

Nýjar íslenskar kartöflur koma á markaðinn í lok júlí, ef tíðin verður þokkaleg. Þangað til þarf að flytja inn erlendar kartöflur. helgi@mbl.is