Hversu langt ætla þingmenn VG að ganga í daðrinu við Samfylkinguna?

Stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu hér á landi leggja mikið á sig við að reyna að útskýra fyrir landsmönnum að ekkert í samskiptum Íslands og ESB geti tengst yfirstandandi aðildarviðræðum. Þeir sjá ekkert athugavert við að ESB gerist með ósvífnum hætti aðili að málsókn gegn Íslandi og reyni með því að skaða hagsmuni landsmanna eins og sambandinu frekast er unnt.

Þeir sjá heldur ekkert að því að Evrópusambandið hóti viðskiptaþvingunum gegn Íslandi vegna deilunnar um makrílinn, þar sem þetta séu „ótengd mál“.

Hljómurinn í „röksemdum“ stuðningsmanna ESB verður þó æ holari eftir því sem tíminn líður og Evrópusambandið snýst harðar gegn Íslandi. Þetta sjá allir og jafnvel þeir sem hafa hingað til kosið að setja kíkinn fyrir blinda augað geta ekki látið sem þeir sjái ekki tengslin þegar þingmenn í sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins hafa nú farið fram á að aðildarviðræður við Ísland verði stöðvaðar vegna makríldeilunnar.

Fyrir liggur að þessir þingmenn hafa gengið á fund Stefans Füle stækkunarstjóra með þessa kröfu og að hann sagði þeim að málið væri til meðhöndlunar á æðstu stöðum innan framkvæmdastjórnarinnar, að hann hefði skilning á málinu og að hann vildi að lausn yrði fundin.

Það var þess vegna sérkennilegt að sjá í fyrirspurnartíma á Alþingi í gær að enn skuli vera til íslenskir þingmenn sem láta eins og ekkert hafi í skorist. Og þessir þingmenn eru ekki bara í sértrúarsöfnuðinum í Samfylkingunni heldur einnig í Vinstri grænum.

Ragnheiður Elín Árnadóttir spurði varaformann þess flokks hvort hún teldi að þrátt fyrir þetta ætti að halda viðræðum við Evrópusambandið áfram eins og ekkert hefði gerst og fékk það staðlaða samfylkingarsvar að halda ætti makríldeilunni utan við aðlögunarferli Íslands að ESB. Katrín Jakobsdóttir sagðist vita af kröfugerð evrópuþingmannanna til Füle en taldi enga ástæðu til viðbragða af Íslands hálfu og sagðist þrátt fyrir þetta telja málin ótengd.

Hvernig á að vera hægt að ræða jafn mikilvæg mál og aðlögunarferli Íslands að ESB eða rík hagsmunamál á borð við makríldeiluna, þegar ráðherrar Samfylkingar og Vinstri grænna hafa kosið að loka báðum augum fyrir umheiminum og neita að láta staðreyndir hafa áhrif á sig? Það er auðvitað ekki nokkur leið. Þegar þingmenn koma upp í ræðustól Alþingis og segjast telja að makríldeilan og ESB séu ótengd mál þrátt fyrir að sá sem rætt er við telji þau nátengd og tvinni þau saman í kröfugerðum þá er útilokað að vitrænar umræður geti átt sér stað.

Um leið vaknar spurningin hvernig hægt er að útskýra þessa blindu stórs hóps þingmanna, ekki síst þingmanna Vinstri grænna. Hvað veldur því að þeir neita að sjá hið augljósa? Er svarið að finna í löngun þeirra til að stofna til kosningabandalags með Samfylkingunni fyrir næstu kosningar eða jafnvel að sameina flokkana? Ætla þessir þingmenn Vinstri grænna að fórna helsta baráttumáli sínu frá síðustu kosningum til að fá að skríða upp í hjá Samfylkingunni? Getur verið að þeir ætli að fórna eigin flokki fyrir þátttöku í sértrúarsöfnuðinum?