Bjarney Guðrún Jónsdóttir fæddist á Folafæti í Ísafjarðarsýslu 14. júlí 1921. Hún lést þann 9. apríl 2012 á Sjúkrahúsi Seyðisfjarðar.

Jarðarför Bjarneyjar fór fram frá Kirkjubæjarkirkju í Hróarstungu 14. apríl 2012.

Æskuminningar með Eyju ömmu.

Það voru ófáar nætur sem ég fékk að gista hjá þér í sveitinni á Vífilsstöðum á mínum yngri árum. Þú varst vön að lesa fyrir mig bókina um litla læknissoninn fyrir svefninn. Í eitt skiptið gleymdi ég náttfötunum mínum heima og þú lánaðir mér náttkjól af þér, hann náði mér niður á tær og var rauður með gylltum þverröndum, mér fannst hann svo flottur og mér leið eins og prinsessu í honum. Þennan náttkjól fékk ég alltaf lánaðan þegar ég var hjá þér þangað til á endanum þú gafst mér hann og á ég hann enn.

Í sveitinni á Vífilsstöðum var alltaf gaman að vera og á ég margar góðar minningar frá því þegar ég dvaldist þar sem barn. Við amma fundum okkur alltaf eitthvað að dunda og hjálpaði hún mér mikið við prjónaskap og útsaum. Amma átti húsfreyjustól sem stóð í stofunni, svartan dömulegan leðurstól, ég man hvað mér þótti gaman þegar ég fékk að sitja í honum. Einnig man ég hvað brakaði alltaf í gólfinu þegar stigið var inn á stofugólfið. Eitt er mjög sterkt í minningunni hjá mér og það er þegar lyktin af heita sveskjugrautnum hennar lagðist yfir húsið, amma eldaði hann oft í eftirrétt eftir helgarsteikur eða fínni mat og var hann algjört sælgæti með rjóma út á. Svo eru það einnig litlu rjúpustytturnar sem ég man svo vel eftir, voru þær í glugganum inni í stofu og leyfði amma mér að leika með þær þótt þær væru brothættar og mat ég það mikils.

Amma var mikið fyrir að fara með vísur og kvæði og fór hún eitt sinn með kvæði sem byrjaði svona: „Karl og kerling riðu á Alþing, fundu tittling, stungu í vettling...“ og ég heyrði ekki meir því þetta var nóg til þess að ég sprakk úr hlátri og heyrði ekki restina. Þennan bút apaði ég eftir henni trekk í trekk og hló hærra og hærra og vorum við oft að grínast með þetta og notaði hún þetta í hvert skipti sem hún þurfti að kæta mig. Já hún amma hafði alltaf ráð við öllu. Eitt sinn var ég eitthvað leið því strákur í skólanum mínum hafði verið að stríða mér og auðvitað sagði ég ömmu frá því, hún var ekki lengi að kenna mér vísu sem ég átti að fara með næst þegar þetta henti mig og hún hljóðaði svo:

Þú ert asni, þú ert svín,

þú ert einskisnýtur,

heilinn er úr hafragraut

og helmingurinn skítur.

Og þessa vísu fór ég með og viti menn, það virkaði.

Elsku amma, takk fyrir allar góðu stundirnar og takk fyrir allt sem þú hefur kennt mér, þú hefur alltaf verið mér fyrirmynd. Sjáumst síðar.

Berglind Elíasdóttir.