Í vikunni var gengið frá samningi milli ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu þess efnis að ríkið leggi til 900 milljónir á ári til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu næstu tíu árin. Markmið samningsins er m.a.

Í vikunni var gengið frá samningi milli ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu þess efnis að ríkið leggi til 900 milljónir á ári til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu næstu tíu árin. Markmið samningsins er m.a. að auka hlutdeild almenningssamgangna í heildarfjölda ferða á höfuðborgarsvæðinu a.m.k. tvöfalt, úr 4% í 8%, en einnig stendur til að hafa umhverfissjónarmið að leiðarljósi í rekstrinum, t.d. þegar nýjum vögnum verður bætt í flota Strætó bs. Á móti skuldbinda sveitarfélögin sig til að minnka ekki framlög sín til málaflokksins og samþykkja að ekki verði ráðist í umfangsmiklar samgöngumannvirkjaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu á samningstímanum.

Samningurinn verður m.a. til þess að hægt verður að bæta þjónustu Strætó bs. og stendur raunar til að ráðast í breytingar í þá átt strax í sumar og með auknum krafti næsta haust. Stjórnendur fyrirtækisins hafa viðurkennt að viðskiptavinir þess, notendur strætó, hafi kallað eftir þjónustuaukningu og m.a. óskað eftir því að vagnarnir keyri lengur fram eftir á virkum kvöldum og hefji akstur fyrr á morgnana um helgar. Þessu á að verða við.

Stjórnendum Strætó bs. virðist þó einnig ljóst að leiðarkerfi Strætó, í núverandi mynd, mun aldrei uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til þess. Það verður aldrei nógu skilvirkt né áreiðanlegt, ferðir aldrei nógu tíðar né stuttar í tíma. Til þess þyrfti miklu meiri peninga, fleiri vagna og fleira starfsfólk, en jafnvel þá yrði þjónustan alltaf háð þeim takmörkum sem gatnakerfi borgarinnar setur henni.

Til skemmri tíma litið virðist fátt hægt að gera en stjórnendur Strætó bs. horfa nú til framtíðar og vinna að smíði tíu ára áætlunar. Það virðist ekki langur tími þegar litið er til þess að almenningssamgöngur í Ósló t.d. eru skipulagðar 50 ár fram í tímann en við byrjuðum seinna að horfa til þessara mála en margar aðrar þjóðir og erum enn að læra. Á tíu ára áætlun Strætó stendur raunar til að draga lærdóm af langri reynslu nágrannaþjóða okkar. Hefur í því samhengi m.a. verið horft til forgangsaksturs, hraðleiða og ekki síst til sveigjanlegs leiðarkerfis, þar sem bæði er leitast við að mæta fjölbreyttum þörfum notenda almenningssamgangna og á sama tíma að hámarka nýtingu ferða á jaðartímum með hagkvæmnissjónarmið að leiðarljósi.

Kerfið er í dag að ýmsu leyti gallað og það getur verið fáránlega flókið og tímafrekt að ferðast með strætó. Þetta eru vagnstjórarnir fyrstir til að viðurkenna. Það á enn eftir að koma í ljós hversu miklu þessi innspýting frá ríkinu á eftir að skila en sé það raunverulegur vilji kjörinna fulltrúa að gera Strætó að raunhæfum valkosti og í leiðinni að draga úr mengun og umferðarþunga á höfuðborgarsvæðinu, er kominn tími til að hugsa út fyrir rammann. holmfridur@mbl.is

Hólmfríður Gísladóttir

Höf.: Hólmfríður Gísladóttir