<strong>Verk</strong> Nokkur verk Ingimundar Sveinssonar arkitekts, talið efst frá vinstri: Sjóváhúsið; Perlan; Orkuveituhúsið að innan; Íslensk erfðagreining, að innan; leikskólinn Vættaborgir; bensínstöð Olís á Selfossi; Sparisjóður Mýrarsýslu á Selfossi; fyrrv. höfuðstöðvar Olís; Íslensk erfðagreining í Vatnsmýrinni; Miðbær og ráðhús Garðabæjar; Sóltún 11-13, höfuðstöðvar Málningar að innan og hús Marel.
Verk Nokkur verk Ingimundar Sveinssonar arkitekts, talið efst frá vinstri: Sjóváhúsið; Perlan; Orkuveituhúsið að innan; Íslensk erfðagreining, að innan; leikskólinn Vættaborgir; bensínstöð Olís á Selfossi; Sparisjóður Mýrarsýslu á Selfossi; fyrrv. höfuðstöðvar Olís; Íslensk erfðagreining í Vatnsmýrinni; Miðbær og ráðhús Garðabæjar; Sóltún 11-13, höfuðstöðvar Málningar að innan og hús Marel.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingimundur Sveinsson arkitekt fæddist í Reykjavík og ólst þar upp í foreldrahúsum.

Ingimundur Sveinsson arkitekt fæddist í Reykjavík og ólst þar upp í foreldrahúsum. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1962, stundaði nám i byggingarlist við RWTH Aachen í Þýskalandi 1962-68, með DAAD-styrk síðari hluta náms og lauk Dipl.Ing.-prófi 1969.

Ingimundur starfaði á Teiknistofu Skarphéðins Jóhannssonar 1969-70 og hefur rekið eigin arkitektastofu í Reykjavík frá 1971. Helsti samstarfsmaður hans síðari ár hefur verið Jóhann Einarsson arkitekt.

Ingimundur sat í stjórn Almenna bókafélagsins 1980-92, var formaður Hverfafélags sjálfstæðismanna í Vestur- og Miðbæ 1980-82, var varaformaður skipulagsnefndar Reykjavíkurborgar 1982-94 og hefur sinnt dómnefndarstörfum í ýmsum samkeppnum.

Helstu verk Ingimundar

Meðal ýmissa verka Ingimundar má nefna aðal- og deiliskipulagsvinnu fyrir Ísafjarðarkaupstað 1972-89; Deiliskipulagsvinnu fyrir Garðabæ; Bæjargil, Arnarnesland og fleira; Hús verslunarinnar; byggingu Ísbjarnarins, síðar Granda; íbúðir fyrir aldraða; VR í Hvassaleiti, einnig Efstaleiti, Miðleiti, Seltjarnarnesi og Ísafirði;: skipulag og húsahönnun Eiðisgranda í Reykjavík og á Hvömmum í Hafnarfirði; Vesturbæjarskóla og stækkun Árbæjarskóla; miðbæjarkjarna í Garðabæ og Mosfellsbæ; íbúðarhverfi einbýlis-, rað- og parhúsa fyrir Álftárós hf. í Mosfellsbæ; Sjóvá-Almennar, Kringlunni 5; Perluna í Öskjuhlíð; leikskóla við Vættaborgir og Mururima í Reykjavík; verksmiðju- og skrifstofubyggingu Málningar í Kópavogi; höfuðstöðvar Olís við Sundagarða auk bensínstöðva fyrir félagið; deiliskipuag og hönnun bygginga við Sóltún í Reykjavík; höfuðstöðvar Íslenskrar erfðagreiningar; höfuðstöðvar Marels og höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur í samvinnu við Horn-steina ehf.; Háskólatorg og Gimli, einnig í samvinnu við Hornsteina.

Ingimundur fékk menningarverðlaun DV fyrir skrifstofuhús Sjóvár-Almennra 1990 og fyrir Perluna 1992, fékk sérstaka viðurkenningu frá byggingarnefnd Reykjavíkur fyrir höfuðstöðvar Olís, deiliskipulag og hönnun bygginga við Sóltún og höfuðstöðvar Íslenskrar erfðagreiningar.

Ingimundur hefur unnið í fjölmörgum samkeppnum og hefur sjö sinnum fengið tilnefningar til menningarverðlauna DV. Hann hefur auk þess fengið tilnefningu til Evrópuverðlauna fyrir arkitekta, Mies van der Rohe-verðlaun.

Starfsgleðin kjarni málsins

Þegar Ingimundur er spurður hvort hann sé sáttur við starfsferilinn þegar litið er um öxl, svarar hann afdráttarlaust og stendur ekki á svarinu: „Ég hef staðið í þessu undanfarin 40 ár. Það hafa auðvitað komið þeir tímar að manni hefur fundist þetta verið óttalegt hark, og líklega hafa ýmsir haft meira upp úr sínu krafsinu en ég. En það er auðvitað spurning hvað maður vill fá út úr ævistarf sínu. Hvernig sem á allt er litið hefur starf mitt veitt mér mikla ánægju og lífsfyllingu. Er það ekki bara kjarni málsins.“

Fjölskylda

Ingimundur kvæntist 1966 Sigríði Arnbjarnardóttur, f. 14.4. 1943, menntaskólakennara. Hún er dóttir Arnbjarnar Óskarssonar, iðnrekanda og kaupmanns í Reykjavík, og Hrefnu Karlsdóttur húsmóður.

Börn Ingimundar og Sigríðar eru Sveinn, f. 9.11. 1974, auglýsingahönnuður í New York; Arnbjörn, f. 11.6. 1976, hagfræðingur í Reykjavík, kvæntur Margaret Ingimundarson, BA í ensku, en dóttir þeirra er Mary Lilja; Anna Hrefna f. 2.5.1983, hagfræðingur í Reykjavík, gift Einari Oddssyni hagfræðingi en dóttir þeirra er Sonja Sigríður.

Systkini Ingimundar: Benedikt, f.1938, hrl., kvæntur Guðríði Jónsdóttur húsmóður og eiga þau þrjá syni; Guðrún, f. 1944, lögfræðingur, gift Jóni B. Stefánssyni verkfræðingi og eiga þau þrjár dætur; Einar, f. 1948, fyrrv. forstjóri Sjóvár-Almennra, kvæntur Birnu Hrólfsdóttur kennara og eiga þau þrjú börn.

Foreldrar Ingimundar: Sveinn Benediktsson, f. 12.5. 1905, d. 1979, framkvæmdastjóri í Reykjavík, og k.h., Helga Ingimundardóttir, f. 23.12. 1914, d. 2008, húsmóðir.