Páll Ragnar Pálsson
Páll Ragnar Pálsson
Kátínuvísindin nefnist nýtt tónverk eftir Pál Ragnar Pálsson samið við ljóð Eiríks Arnar Norðdahls sem flutt verður í Kaldalóni í Hörpu í dag kl. 17.
Kátínuvísindin nefnist nýtt tónverk eftir Pál Ragnar Pálsson samið við ljóð Eiríks Arnar Norðdahls sem flutt verður í Kaldalóni í Hörpu í dag kl. 17. Flytjendur verksins eru sópransöngkonan Tui Hirv og Duo Harpverk sem skipað er Katie Buckley hörpuleikara og Frank Aarnink ásláttarleikara.

„Við Eiríkur höfum þekkst nokkuð lengi, en þegar ég spilaði með hljómsveitinni Maus á sínum tíma þá vorum við mikið að spila á Ísafirði þaðan sem hann er. Þegar Eiríkur kom til Tallin til að taka þar þátt í bókmenntahátíð þá nefndi ég það við hann hvort ég ætti ekki að semja tónlist við einhver af ljóðunum hans og í framhaldinu sendi hann mér bækur sínar. Þar rakst ég strax á þessi tvö ljóð sem eru eins og hálfgerð systkin, þ.e. Hýperbólusetning og Parabólusetning, og þau höfðuðu strax til mín. Ímyndunaraflið er svo dásamlega óbeislað hjá Eiríki og þessi ljóð segja manni svo margt án þess að þýða nokkurn skapaðan hlut,“ segir Páll Ragnar sem leggur stund á doktorsnám í tónsmíðum við Tónlistarakademíuna í Eistlandi.

Að sögn Páls Ragnars hafa verkin fengið að gerjast yfir lengri tíma. „Hýperbólusetningu samdi ég sumarið 2010 og Parabólusetningu ári síðar. Þetta ár sem leið á milli verkanna tveggja var gríðarlega afkastamikið og í raun sýna verkin vel hvernig ég þróaðist á þessum tíma. Í Hýperbólusetningu reyndi ég að laga tónlistina að taktinum í textanum og þannig varð verkið eins og röð af litlum einingum þar sem fókusinn er á augnablikinu frekar en heildarmyndinni. Í Parabólusetningu hafði ég hins vegar sama gegnumgangandi púlsinn undir öllu verkinu og þó það hljómi mótsagnakennt þá gaf það mér meira frelsi til að vinna með óreiðuna sem ljóðið fangar,“ segir Páll Ragnar og bætir við: „Markmiðið er að orkan og sköpunargleðin í textanum komi fram í tónlistinni. Þannig að hið frjálsa flæði ljóðanna finnist í tónlistinni þar sem hún flýtur áfram í skipulagðri óreglu.“

Aðspurður segist Páll Ragnar hafa samið verkin sérstaklega með flytjendurna í huga. „Tui, sambýliskona mín, mun syngja verkin á íslensku. Það er vissulega ákveðin áskorun, en hún hefur gert það nokkrum sinnum áður auk þess sem hún er mikil tungumálamanneskja,“ segir Páll Ragnar og tekur fram að hann hafi samið nokkur verk á íslensku fyrir sambýliskonu sína áður. „Við vinnum ansi mikið saman, höldum t.d. tónleika undir merkjum Konveier og vinnum oft hugmyndavinnu saman þegar ég er að semja fyrir aðra,“ segir Páll Ragnar og tekur fram að það séu í raun mikil forréttindi að semja fyrir Tui. „Ég þekki rödd hennar mjög vel og veit hvernig hún hljómar á ýmsum sviðum. Ég fæ hana oft til að syngja fyrir mig þegar ég er að semja og spyr hana álits sem er mjög gefandi.“

Þess má að lokum geta að auk verks Páls Ragnar verða á tónleikunum frumflutt verk eftir Völu Gestsdóttur, Áskel Másson, Pétur Grétarsson og rússneska tónskáldið Andrew Gen. Popoff, en Úlfur Úlfaldi bætist þá í hóp ofangreindra flytjenda. silja@mbl.is