Vor á landi ísa Á þessari mynd sem tekin var á miðvikudaginn sést vel hvernig vetur hefur vikið fyrir vori en þá var heiðskírt yfir landinu og verður áfram fram eftir helgi.
Vor á landi ísa Á þessari mynd sem tekin var á miðvikudaginn sést vel hvernig vetur hefur vikið fyrir vori en þá var heiðskírt yfir landinu og verður áfram fram eftir helgi. — Ljósmynd/NASA
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.

Sviðsljós

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

„Hann gaf jöklunum vel, þessi vetur,“ segir Oddur Sigurðsson, sérfræðingur á sviði jöklarannsókna hjá Veðurstofu Íslands, en starfsmenn Veðurstofunnar og fleiri hafa mælt snjóþykkt og -þyngd á Hofsjökli, Drangajökli og Mýrdalsjökli og komist að því að snjórinn á jöklunum er mun meiri en að jafnaði á undanförum árum.

Þróunin ár frá ári segir þó lítið til um langtímaþróunina, sem bendir til þess að jöklarnir séu að hopa, og hraðar en menn grunaði. „Þegar við tölum um afkomu jökuls þá er það þannig að ef meira bætist við jökulinn að vetrinum en leysir á sumri þá stækkar hann það árið og þá hefur hann jákvæða afkomu. Og síðan er það hið gagnstæða, ef leysir meira að sumri en snjóar að vetrinum þá hefur hann neikvæða afkomu. Allir stærstu jöklarnir á landinu hafa haft neikvæða afkomu á hverju einasta árið síðan 1995. Og það er alveg með ólíkindum að það skuli líða 16 ár í röð þar sem afkoman er neikvæð öll árin,“ segir Oddur.

Hann segir síðastliðinn áratug hlýjasta tímabil sem þekkist í sögu veðurmælinga á jörðinni og að nánast allir loftslags- og veðurfræðingar séu sammála um að áframhald verði á þessari þróun ef maðurinn breyti ekki háttum sínum.

Veðrið ræður mestu

Hins vegar er erfitt að spá um sumarleysingar, segir Oddur, þar ráði sumarveðrið mestu. „Vetrarbúskapurinn segir ekki mikið til um hvað gerist að sumri. Það atriði sem hefur mest áhrif á viðgang jöklanna yfir sumarið er sólargeislunin og hlýindi en síðan geta tvö önnur atriði haft áhrif,“ segir hann. Annað sé rykfok upp á jöklana, sem auki leysingu mikið, og á hann von á því að aska úr síðustu tveimur gosum geti haft sitt að segja í sumar, þar sem hún sé enn ekki orðin stöðug.

Askan til jökla

„Ef hvessir þá rýkur askan upp á jöklana og ég geri fastlega ráð fyrir að hún hafi borist upp á Mýrdalsjökul um daginn og eflaust gætir hennar á Vatnajökli og ef til vill á fleiri jöklum. Hitt gæti svo virkað í hina áttina að ef það snjóar á næstunni, eða að sumrinu, þá drepur það niður leysinguna mjög snarlega, í nokkurn tíma að minnsta kosti,“ segir Oddur.

Askan einangrar jökulinn

Oddur segir sumarið í fyrra hafa verið mun kaldara en sumarið á undan en sumarið 2010 hafi leysing verið með því mesta sem menn hafi orðið vitni að. Orsakavaldarnir voru bæði hlýtt veður og aska úr Eyjafjallajökli, sem dreifðist út um allt land og meira og minna á alla jökla.

„Það voru reyndar tveir jöklar sem minnkuðu ekki, eða minna, í leysingum út af þessu og það voru Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull. Þar var askan svo þykk að hún einangraði jökulinn. Og það er dálítið merkilegt og athyglisvert, það þarf ekki nema það sem skiptir einum eða tveimur millimetrum til að rykið farið að einangra,“ segir Oddur.

Snjór að sumri dregur einnig úr leysingum en hann felur öskuna og allt sem er dökkt á yfirborði jökulsins og eykur endurkastið svo mikið að jökullinn dregur ekki í sig geislun sólar í þeim mæli sem hann myndi annars gera.