Ingibjörg Jóhannsdóttir, skólastjóri Húsmæðraskólans á Löngumýri í Vallhólma í Skagafirði, fæddist á Löngumýri 1. júní 1905. Hún var dóttir Jóhanns Sigurðssonar, bónda á Löngumýri, og Sigurlaugar Ólafsdóttur húsfreyju.

Ingibjörg Jóhannsdóttir, skólastjóri Húsmæðraskólans á Löngumýri í Vallhólma í Skagafirði, fæddist á Löngumýri 1. júní 1905. Hún var dóttir Jóhanns Sigurðssonar, bónda á Löngumýri, og Sigurlaugar Ólafsdóttur húsfreyju.

Ingibjörg átti því láni að fagna að hljóta haldgóða menntun af hendi foreldra sinna en þau voru dugleg að beina börnum sínum á menntabrautina. Faðir Ingibjargar starfaði sem kennari áður en hann gerðist bóndi í Skagafirði.

Ingibjörg sótti nokkur námskeið í garð- og skógrækt áður en hún fór til Reykjavíkur í Kvennaskólann. Þar þurfti hún einungis að sitja einn vetur því hún kom ákaflega vel undirbúin. Ingibjörg lauk kennaraprófi 1936. Ingibjörg fór í námsferð til barna- og húsmæðraskóla í Noregi og Svíþjóð 1938. Þá stundaði hún nám við Húsmæðrakennaraskóla Noregs og síðar í Danmörku og Þýskalandi.

Ingibjörg er verðugur fulltrúi þeirra kvenna af aldamótakynslóðinni sem einsettu sér ungar að vinna að menntun kynsystra sinna og ryðja braut nýjum viðhorfum í hússtjórn er lutu að auknum þrifnaði, matjurtaræktun og fjölbreyttari fæðu.

Ingibjörg tók áskorun Jónasar frá Hriflu, þáverandi kennslumálaráðherra, að taka að sér starf skólastýru við Húsmæðraskólann á Staðarfelli árið 1937. Ingibjörg þótti standa sig með mikilli prýði í þau sjö ár sem hún stýrði skólanum.

Á lýðveldisárinu 1944 flutti hún aftur heim að Löngumýri og stofnaði Húsmæðraskóla og var skólastjóri hans til 1967. Þar þurfti hún að byrja alveg frá grunni því aðbúnaðurinn var enginn. Oft gekk erfiðlega að fá styrki og reyndi hún að mæta þeim kostnaði sjálf eftir fremsta megni. Mikil aðsókn var í skólann og útskrifuðust um 700 stúlkur í hennar tíð.

Ingibjörg var formaður Skógræktarfélags Skagfirðinga, Kvenfélags Seyluhrepps og gjaldkeri Kvenfélagasambands Skagafjarðar um skeið. Hún skrifaði töluvert í blöð og tímarit, aðallega um uppeldis- og skólamál.

Ingibjörg lést 9. júní 1995.