Erna Björg Bjarnadóttir fæddist í Reykjavík 4. apríl 1968. Hún andaðist á krabbameinsdeild, Landspítala – háskólasjúkrahúsi, 13. maí 2012.

Erna Björg var jarðsungin frá Dómkirkjunni 24. maí 2012.

Um árið þegar litaðar linsur komu í tísku var Erna oft spurð hvar hún hefði keypt sínar, augnalitur hennar var alveg einstakur semi kattar gul/grænn og alveg ótrúlega fallegur. Það eru u.þ.b. 25-30 ár síðan ég kynntist Ernu og þyrfti heila bók ef ég myndi reyna að rifja upp allt sem við brölluðum saman.

Þegar ég læt hugann reika yfir hennar allt of stuttu ævi kemur eitt orð upp í hugann, „orkubolti“ sem efaðist ekki eina einustu mínútu um að hún gætir gert allt sem henni datt til hugar og það var alveg ótrúlega margt sem Erna komst yfir, eins og allar ferðirnar sem hún fór með gullið sitt hann Andra Frey og þá var ekki verið að fara stuttar ferðir heldur var búið í einhvern tíma á hverjum stað, eins og í Danmörku þegar hann var bara tveggja ára og síðar Belgíu, Brussel og ekki má gleyma ferðunum til Bandaríkjanna. Ég held að ég fari rétt með að það voru allavega 13 lönd sem þau heimsóttu saman ef ekki fleiri.

Listinn er endalaus, tilvitnunin úr Vaktarþáttunum „Hvað er að frétta“ á vel við, því það var alltaf eitthvað að frétta af henni Ernu ef hún var ekki nýkominn einhvers staðar erlendis frá þá var hún að plana nýtt ferðalag eða að hún var að fara á námskeið eða skrá sig í einhvern skóla o.s.frv. Ef einhver var að flytja eða framkvæma eitthvað var hún alveg ómissandi.

Farandverkamaður, sjómaður, sölumennska, markaðsmál, gistiheimilisstýra, kokkur, rútubílstjóri og þetta er ekki allt sem hún gerði ég stikla bara á stóru. Svo voru það öll námskeiðin og prófin: sjókokkurinn, mótorhjólapróf, kafarapróf, meirapróf og síðasta vetur eða 2010-2011 reyndi hún að klára það sem hún átti eftir í ferðamálaskólanum í Kópavogi, og átti aðeins tvö próf eftir. En þessi elska var bara orðin veik þarna án þess að vita það.

Einnig eiga börnin mín góðar minningar um hana og dettur mér ein í hug þar sem hún tók þau öll þrjú dagstund fyrir einhverjum árum. Það voru kosningar þessa helgi og fór hún með þau á kosningaskrifstofur allra flokka. Þar fengu þau merki, blöðrur, húfur og fána merkt viðkomandi flokki og að sjálfsögðu gos, djús, vöfflur eða pönnsur á hverjum stað og komu heim alsæl með allt þetta kosningadót og með rjóma upp á kinnar með þá visku frá Ernu „frænku“ að það skipti ekki máli hvað flokkurinn héti, þeir væru allir með gott meðlæti. Þetta var á þeim tíma þegar Andri var orðinn of fullorðinn til að nenna þessu með mömmu sinni og hún fékk þá bara önnur börn „lánuð“ til að gera eitthvað skemmtilegt með, eitthvað varð að gera til að fá útrás fyrir orkuna hjá þessari elsku.

Já, þannig endar lífsins sólskinssaga.

Vort sumar stendur aðeins fáa daga.

En kannske á upprisunnar mikla morgni

við mætumst öll á nýju götuhorni.

(Tómas Guðmundsson.)

Elsku Erna mín, takk fyrir allt.

Ég mun fylgjast með honum Andra þínum og Ásdísi Freyju og sjá til þess að minning þín lifi, kæra vinkona.

Elsku Andri Freyr, Tara, Ásdís Freyja, Alda, Óli og Markús, hugur minn er hjá ykkur

Hlín Íris og fjölskylda.

Það má segja að dregið hafi fyrir sólu þegar við, litlu frænkur Ernu, fengum fregnir af veikindum hennar. Þegar myrkrið var sem dýpst í sálinni þá örlaði þó á ljósbroti vonar um að Ernu frænku, sem lét aldrei deigan síga, hvorki fyrir sjálfri sér né því sem hún tók sér fyrir hendur, tækist að sigra þennan sjúkdóm. Því í minningu var hún svo sterkur persónuleiki, næstum því eins og hún væri ósnertanleg og óbugandi, þvílíkur var kraftur hennar og lífsorka.

Það var aldrei nein lognmolla í kringum Ernu því alltaf var eitthvað í bígerð til dæmis læra á mótorhjól, ná sér í trukkaréttindi, ferðast heimshornanna á milli og svo margt annað. Þú varst alltaf til staðar fyrir svo marga og alltaf reiðubúin að hjálpa öðrum. Ekki er hægt að segja annað um hana Ernu frænku okkar en að hún hafi lifað á ljóshraða lífsins, þessi elska sem við unnum svo heitt. Við minnumst þeirra stunda þegar þú passaðir okkur þegar við vorum litlar, hvað það var gaman og mikið líf og fjör alltaf með þér, þú sannarlega hugsaðir vel um okkur litlu frænkur. Alltaf voru okkar tengsl sterk, við vorum ávallt kærar vinkonur og gátum spjallað um allt milli himins og jarðar. En sitthvað er gæfa og annað gjörvileiki, það sem einum tekst megnar annar ekki að framkvæma. Þú gast svo sannarlega dimmu í dagsljós breytt þegar lífið brosti þér í mót, þannig minnumst við þín, elsku frænka.

Við eigum þá ósk eina að allir guðs englar sjái sér fært að taka vel á móti þér og umvefja þig kærleik og allri sinni umtöluðu ást. Hvernig þú komst fram við okkur og hvernig þú hafðir tíma til að hlusta á tvö lítil hjörtu, síðan stór. Það er ekki hægt að segja annað um þig en að þú komst vel fram við alla, þá sem minna máttu sín og líka alla sem urðu þér samferða. Vonum við að það muni lifa þúsund ljós í þinni Paradísarheimt, elsku frænka. Við minnumst þín sem skemmtilegrar, kærleiksríkrar og yndislegrar frænku sem við vorum svo heppnar að eiga að, við munum hittast síðar.

Eitthvað er það

sem engin hugsun rúmar

en drýpur þér á augu

sem dögg – þegar húmar.

(Hannes Pétursson.)

Elsku Andri, Alda, Tara og Ásdís Freyja. Við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.

Kristjana Lind og Jónína.

Mig setur hljóða, ég fæ hnút í magann og reiðin ólgar í huga mér. Erna Björg litla frænka mín er farin, ferlega finnst mér lífið ósanngjarnt. Við Erna vorum þremenningar. Þegar við vorum litlar hittumst við stundum og ég man svo vel eftir þessari litlu orkusprengju sem víbraði af orku og prakkaraskap. Hún var 5 árum yngri en ég svo við áttum ekki sérstaka samleið á yngri árum. Við vorum ekki heldur í neinu sambandi síðustu áratugi en fengum fréttir hvor af annarri af og til eins og gengur og gerist í fjölskyldum.

Vorið og sumarið 2011 stóðum við báðar frammi fyrir því að greinast með krabbamein, í kjölfarið fórum við að hittast og töluðum oft saman í síma og milli okkar mynduðust sterk og falleg tengsl. Báðum fannst okkur synd að við skyldum ekki kynnast fyrr, en vorum ánægðar með að hafa náð saman þó það væri ekki til komið af góðu. Við hringdum oft hvor í aðra og gátum talað saman um allt án þess að ritskoða hvað við sögðum og hvernig og það er ekki lítils virði þegar maður stendur í þessari baráttu þar sem líðanin er oft ekki upp á marga fiska.

Við uppgötvuðum fljótt að við áttum margt sameiginlegt og höfðum því um nóg að spjalla. Við vorum báðar mótorhjólastelpur og stefndum að því að fara saman að hjóla í sumar, þar sem Erna átti ekki hjól í bili vorum við búnar að ákveða að hún kæmi sem hnakkaskraut hjá mér. Við töluðum um nám, störf, börnin okkar og barnabarnið hennar, vonir og væntingar í lífinu, óttann og hræðsluna. Við ætluðum að gera svo margt saman þegar við værum búnar að klára þessi leiðindi, enda báðar orkuboltar og höfðum fullt af hugmyndum um það sem okkur langaði að gera. Mér finnst ég ótrúlega heppin af hafa kynnst Ernu og það er alveg á hreinu að þar sem hún er núna, þar er engin lognmolla og kyrrstaða. Ef kraftur, dugnaður og vilji væri það sem til þyrfti til að sigrast á þessum óþverra er alveg á hreinu að Erna hefði sigrað fyrir löngu, því hún kunni að berjast og finna leiðir og lausnir á því sem hún stóð frammi fyrir, en þessi barátta snýst ekki um dugnað, því miður. Elsku Alda, Andri og fjölskylda, öll orð virðast svo innihaldslaus á þessari stundu en hugur minn er hjá ykkur og ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur á þessum erfiða tíma.

Marín Björk Jónasdóttir.

Þrjátíu ára vinátta og kærleikur sameinaði okkur Ernu. Við sáumst kannski ekkert í mörg ár en þegar það gerðist var eins og einn dagur hefði liðið. Þannig vináttu á maður ekki með mörgum.

Við kynntumst á gagnfræðaskólaárunum, sumarið fyrir 8. bekk. Stór vinahópur sameinaði okkur sem náði frá Hagaskólasvæðinu alla leið út á Seltjarnarnes. Það var mikið brallað á þessum árum og við tvær langt frá því að vera „barnanna bestar“ enda leitaði maður að ævintýrum og háska alla daga. Og oftast var alveg svakalega gaman hjá okkur.

En svo uxum við upp og frá hvor annarri. Erna eignaðist Andra Frey sinn og byrjaði að búa og svo var ég komin með börn og bú og áður en maður áttaði sig á vorum við báðar orðnar „yfir fertugt“ og Erna átti von á barnabarni. Þá um sumarið var hún orðin veik. Við vissum að það leit ekki vel út en samt, allir þeir sem þekkja Ernu trúðu henni til að redda þessu og lifa þetta af. Þannig varð það bara. Erna var svo mikill reddari og rösk, hörkudugleg og á frekjunni dreif hún sig áfram, ákveðin að berjast fyrir lífi sínu. Og ég trúði henni til þess. Þannig var hún í mínum augum. Sterk og sjálfstæð og kvartaði aldrei.

Mitt í hennar veikindum stóð hún eins og klettur með mér þegar faðir minn lést skyndilega, síðastliðið haust. Á hverjum degi hringdi hún og athugaði hvernig mér og mömmu liði. Bauð mér yfir til sín að spjalla og létta á mér og sendi mig í nudd og annað gott fyrir mig og sendi engla og bækur til mömmu. Þarna var Erna sjálf sárlasin og lítil í sér en samt að hugsa um aðra. Full af kærleika og samkennd.

Hún ákvað að eyða afmælinu sínu hjá mér í Bandaríkjunum og ferðin var keypt og allt planað. Það var mikil tilhlökkun í okkur og ég hafði ákveðið að þegar hún kæmi ætlaði ég að stjana við hana í mat og drykk og fara með hana um allt. En breyta þurfti planinu á síðustu stundu vegna veikinda hennar.

Henni þótti það ansi sárt og mér líka og mér fannst eins og krafturinn færi aðeins úr henni en ekki liðu nema nokkrar vikur og hún var búin að ná styrk aftur. Ákveðin að njóta sumarsins sem var að koma. Litla barnabarnið, Ásdís Freyja, átti hug hennar allan og hún var alltaf að tala um hvað henni hlakkaði mikið til að geta verið meira með henni.

Erna gerði plön fram á síðasta dag og ætlaði sér ekki að gefast upp. Hún lést sunnudaginn 13. maí á Landspítalanum. Friðurinn kom og tók hana. En Erna var með önnur plön.

Ég sendi innilegar samúðarkveðjur til Andra, Öldu, Markúsar og Ólafs og yndislegu Ásdísar Freyju. Ég er full af þakklæti fyrir öll árin sem ég fékk að þekkja þessa yndislegu konu.

Hvíl í friði, vinkona.

Þórdís Árnadóttir.