Sjö vilja verða forseti.

Sjö vilja verða forseti. Einn frambjóðandinn segist ekki ætla að verða róttækur forseti, annar segist vera íhaldssamur frambjóðandi, sá þriðji segir það vera skyldu sína að leggja sem flest álitamál í þjóðaratkvæðagreiðslu, sá fjórði er að eigin sögn algjörlega ópólitískur, sá fimmti segir lýðræðinu stafa ógn af ópólitísku fólki, sá sjötti vill leggja áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og sá sjöundi segir nauðsynlegt að veita þinginu aðhald.

Sjö frambjóðendur á ýmsum aldri, með mismunandi lífsreynslu. Þau hafa alist upp við ólíkar aðstæður, stundað hin og þessi störf og það eina sem þetta fólk virðist eiga sameiginlegt í fljótu bragði er að það hefur allt ákaflega mikinn áhuga á að verða forseti og augljóslega tilbúið til að leggja ýmislegt í sölurnar til að svo megi verða.

Auðvitað hefur þetta ágæta fólk mismunandi áherslur og sína persónulegu sýn á forsetaembættið. En af málflutningi þeirra mætti helst halda að þau væru að sækja um sjö mismunandi störf, svo ólíkur er skilningur þeirra á því hvað felst í því að vera forseti.

Einn frambjóðandinn sagði nýlega að kosningarnar væru sögulegar vegna þess að Íslendingar myndu þar ákveða hvernig þeir vildu að forsetaembættið yrði til frambúðar. Já, er það virkilega? Er valdsvið þessa æðsta embættis þjóðarinnar svo mikið á reiki, að sú/sá sem er kjörin/n í það ræður því algjörlega sjálf/ur hvað í því felst?

Þegar frambjóðendurnir haga sér eins og sælgætissjúkir krakkar með frjálsar hendur á nammibarnum í Hagkaupum á laugardegi; ég ætla að fá mikið af málskotsrétti, lítið af pólitískum afskiptum og þjóðaratkvæðagreiðslur fyrir hundraðkall, þá er ekki nema von að almenningur klóri sér í hausnum og spyrji sig: Um hvað snúast þessar kosningar eiginlega ? Hvernig eigum við að geta gert upp við okkur hver af þessum sjö frambjóðendum er hæfastur ef við vitum ekki einu sinni hver starfslýsingin er og þeir sem sækja um þetta starf virðast ekki vita það heldur?

Frambjóðendurnir saka hver annan um að mistúlka hlutverk forseta. En á hvaða rökum er slík gagnrýni byggð, þegar hlutverk forsetans er svona óljóst og enginn virðist vita hvað í því felst? Hvernig er hægt að tala um mistúlkun á einhverju sem enginn virðist vita nákvæmlega hvernig á að vera? Ekki einu sinni helstu lögspekingingar og lærðustu stjórnmálafræðingar landsins virðast geta komist að niðurstöðu um það, þrátt fyrir miklar vangaveltur.

Er ekki fyrir lifandis löngu kominn tími til að koma því á hreint í eitt skipti fyrir öll hvað felst í þessu embætti? Þá fyrst gæti einhver hugsanlega haldið því fram með sanni að einhver annar væri að fara út fyrir valdsvið sitt. Ekki fyrr. Og þá getum við kjósendurnir líka tekið upplýsta ákörðun um hvaða frambjóðandi sé bestur í Bessastaðadjobbið. annalilja@mbl.is

Anna Lilja Þórisdóttir