Halldór Ibsen fæddist 25. febrúar 1925 á Suðureyri við Súgandafjörð. Hann lést 9. maí sl.

Útför Halldórs var gerð frá Hafnarfjarðarkirkju föstudaginn 18. maí 2012.

Afi okkar er farinn frá okkur. Það er skrítin tilhugsun. Margt kemur upp í hugann þegar við hugsum um ömmu og afa á Austurbrautinni. Það var alltaf svo gott að koma til þeirra, amma svo róleg, hlý og þægileg og afi alltaf svo tryggur, öruggur og ákveðinn en góður. Hlýja og væntumþykja var það sem tók á móti okkur efst í stiganum. Þau voru bara eitthvað svo notaleg.

Alltaf fengum við hlaðborð af kökum, en amma bakaði alltaf mikið, súkkulaðiköku sem enginn hefur náð að baka eins og hún gerði, marmarakaka, jólakaka...ummmm, nammm.

Þegar við systkinin vorum í Fjölbraut og vorum í eyðum eða í hádegishléum þá var best í heimi að hlaupa heim til ömmu og afa þar sem amma sat oftast við eldhúsborðið að leggja kapal, lesa ljóð eða í Biblíunni. Afi gerði margt með okkur þegar við vorum börn. Eitt það sem situr sterkt í okkur systkinunum er þegar hann fór með okkur í pylsupartíin hjá Rótary. Það var mjög spennandi. Við sungum hástöfum lag sem við sömdum um þennan viðburð. „Við erum að fara' í pylsupartí með honum afa, við erum að fara' í pylsupartí já já já já“. Uppstríluð og fín.

Eitt annað sem við minnumst sterkt eru hnerrarnir hans. Eftir máltíðir heima hjá þeim á Austurbrautinni þegar hann var búinn að borða þá byrjaði fjörið. Hann byrjaði að hnerra, svo stóð hann upp og gekk ganginn fram og til baka og hnerraði trekk í trekk, oft töldum við hnerrana og það fór oftar en ekki upp í rúmlega tuttugu, í einni bunu. Hvað er það? Okkur fannst þetta alltaf jafn fyndið.

Afi var mjög ákveðinn maður, hafði mjög ákveðnar skoðanir á hlutunum. Líklega er þetta vestfirska þrjóskugenið en þetta er víst eitthvað í fjölskyldunni.

Það er eitt atvik sem við minnumst þegar afi og pabbi voru ósammála um það hvort aldamótin væru árið 2000 eða 2001. Eftir miklar vangaveltur og smákýting baunaði afi á pabba: „Þú þarft alltaf að eiga síðasta orðið Binni.“ Þá sagði pabbi: „Ó fyrirgefðu, pabbi minn, ég vissi ekki að þú vildir hafa það“ og svo hlógu þeir. Þetta fannst okkur skemmtilegt, svo lýsandi.

Núna síðustu árin hringdum við reglulega í afa og spjölluðum þó að það væri ekki nema í stutta stund. Hann hafði alltaf gaman af því að heyra í okkur. Hann hafði líka gaman af því þegar langafabörnin kíktu inn. Við eigum eftir að sakna þess að heyra ekki í honum. Við þökkum fyrir allar þær ljúfu minningar sem afi skildi eftir hjá okkur.

Blessuð sé minning elsku afa okkar

Guðmundur og Brynja Sif.