Markalaust Ekkert var skorað í leik Reykjavíkurliðanna Leiknis og Víkings. Hér eigast við Marteinn Briem úr Víkingi og Stefán Jóhann Eggertsson úr Leikni. Víkingar eru áfram ósigraðir en Leiknismenn hafa enn ekki unnið leik.
Markalaust Ekkert var skorað í leik Reykjavíkurliðanna Leiknis og Víkings. Hér eigast við Marteinn Briem úr Víkingi og Stefán Jóhann Eggertsson úr Leikni. Víkingar eru áfram ósigraðir en Leiknismenn hafa enn ekki unnið leik. — Morgunblaðið/Ómar
Daði Lárusson, hinn reyndi markvörður Hauka, þurfti loksins að sækja boltann í markið eftir að hafa haldið hreinu í 360 fyrstu mínúturnar á Íslandsmótinu í knattspyrnu.

Daði Lárusson, hinn reyndi markvörður Hauka, þurfti loksins að sækja boltann í markið eftir að hafa haldið hreinu í 360 fyrstu mínúturnar á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Karl Brynjar Björnsson, miðvörður Þróttara, náði að skora hjá honum og jafna metin í 1:1 í uppbótartíma í leik liðanna í 1. deild karla á Valbjarnarvellinum.

Daði hafði fyrr í leiknum heldur betur lagt sitt af mörkum til að halda hreinu sem lengst því hann varði vítaspyrnu frá Guðfinni Ómarssyni Þróttara í fyrri hálfleiknum. Þá þegar hafði hinn ungi Aron Jóhannsson komið Haukunum yfir.

Þótt Hafnarfjarðarliðið hafi misst af tveimur stigum í blálokin er það áfram efst í deildinni með átta stig eftir fjóra leiki. Nú geta hins vegar Víkingur frá Ólafsvík eða Þór farið upp fyrir Haukana og á toppinn en liðin mætast á Akureyri á morgun.

Helgi næstur því að skora í markalausum leik

Í Efra-Breiðholti voru Víkingar úr Reykjavík í heimsókn hjá Leiknismönnum og sú viðureign endaði með markalausu jafntefli.

Þar var hart barist en lítið um tilþrif eða marktækifæri. Það besta fékk hinn þrautreyndi Helgi Sigurðsson. Hann kom inn á sem varamaður hjá Víkingum og átti hörkuskot í stöng þegar stundarfjórðungur var til leiksloka.

Víkingar gerðu þar með sitt þriðja jafntefli í fjórum leikjum og markatalan hjá þeim er 2:1. Leiknismenn eru hins vegar enn án sigurs og sitja á botni deildarinnar með tvö stig, jafnir Þrótti og BÍ/Bolungarvík. vs@mbl.is