Ósló Óðinn Björn Þorsteinsson mætir mörgum af þeim bestu á Demantamótinu í næstu viku.
Ósló Óðinn Björn Þorsteinsson mætir mörgum af þeim bestu á Demantamótinu í næstu viku. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KÚLUVARP Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.

KÚLUVARP

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

„Ég fékk bara tölvupóst í gærkvöldi [miðvikudag] þar sem stóð að mér væri boðið að taka þátt,“ segir kúluvarparinn og Ólympíufarinn Óðinn Björn Þorsteinsson um Demantamótið í Ósló sem honum hefur verið boðið að keppa á.

Mótið fer fram 7. júní næstkomandi en Óðinn fékk hjálp Vésteins Hafsteinssonar, kringlukastarans fyrrverandi og núverandi frjálsíþróttaþjálfara og umboðsmanns, við að komast á mótið. „Hann reddaði mér inn á þetta,“ segir Óðinn glaður í bragði.

Mætir þeim bestu

Þetta er í fyrsta skiptið sem Óðinn fer á demantamót en á þeirri mótaröð keppa aðeins þeir bestu. Í Ósló mun hann mæta ríkjandi heimsmeistara, ríkjandi Ólympíumeistara og manninum sem kastaði lengst allra á síðasta ári.

„Þetta er flott. Það er mjög góður undirbúningur fyrir Ólympíuleikana að komast á svona mót. Ég fer út 4. júní og keppi á móti í Lettlandi degi síðar. Svo keppi ég þarna í Ósló þann sjöunda. Það er bara algjör snilld að komast í svona umgjörð og upplifa svona stemningu,“ segir Óðinn Björn.

Tekur 5-6 mót fyrir ÓL

Óðinn átti við erfið meiðsli að stríða á síðasta ári en er orðinn heill af þeim og kastaði sig inn á Ólympíuleikana á heimavelli í Kaplakrika fyrr á árinu. Hann segist vera í góðu standi og meiðslin angri hann ekkert.

„Ég er bara góður og það hefur gengið vel. Ég er alveg heill og er núna að nálgast keppnisform,“ segir Óðinn sem býst við að keppa á nokkrum mótum áður en haldið verður til Lundúna.

„Ég tek Lettland og Ósló núna. Svo eru tvö önnur mót úti, meistaramótið hér heima og kannski eitt sem ég tek í mótaröðinni hjá Frjálsíþróttasambandinu. Þetta verða svona fimm til sex mót sem ég keppi á fyrir Ólympíuleikana,“ segir Óðinn Björn Þorsteinsson.