[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eyjólfur Gíslason, flugþjónn hjá Icelandair, er ungur maður með eigin stíl. Hann sækir áhrif og innblástur úr ýmsum áttum en þó er rauður þráður í gegnum flest sem hann klæðist.

Blanda af götutísku, bóhemastíl og í raun blanda úr ýmsum áttum,“ svarar Eyjólfur þegar hann er beðinn um að lýsa stílnum sínum. „Mér finnst langflottast að vera í öllu aðsniðnu, það er númer eitt, tvö og þrjú. Mér finnst fötin þurfa að vera klæðileg og ,flattering‘, að líkaminn njóti sín í þeim. Ég get klæðst mörgum mismunandi stílum, þannig séð, en þetta er svona það sem hrífur mig mest í dag. Svo finnst mér gaman að vera í bolum með mjög stuttum ermum til að sýna tattúið aðeins“ - Eyjólfur bendir á myndarlegt tattú í asískum stíl sem þekur stærstan hluta hægri upphandleggs - „nema náttúrulega þegar ég er að vinna í fluginu,“ bætir hann við og hlær.

Sækir í alls konar áhrif

Eyjólfur var nýverið í heimsókn í New York, og mestum tímanum varði hann í hinum kraumandi hluta Brooklyn sem kallast Williamsburg. Að eigin sögn varð hann fyrir miklum áhrifum þar enda hverfið suðupottur þar sem straumar og stefnur hvaðanæva að koma saman. Slíkt er okkar manni sérstaklega að skapi enda er hann lítt gefinn fyrir að steypast í sama mótið og allir aðrir. „Í New York fá bara allir að vera nákvæmlega eins og þeir vilja, og það finnst mér magnað að sjá. Maður á ekkert endilega að eltast við þetta eða hitt lúkkið, bara af því það er núna, og risarnir í tískubransanum segja þér að gera það. Ég hef aldrei litið þannig á að þessi hönnuðurinn sé flottastur og ég ætli bara að eiga flíkur frá honum. Mér finnst miklu meira gaman að blanda saman ólíkum áhrifum til að finna minn eigin stíl. Ég get auðveldlega farið inn í vintage-búðirnar og keypt fullt af fötum, og um leið er ég mjög duglegur að taka föt sem ég kaupi og breyta þeim, ef svo ber undir að mér þyki flíkin þurfa þess með. Bæta einhverjum smáatriðum við, þrengja eða hvað sem vera skal. Bara gera flíkina á einhvern hátt að minni. Ef ég gæti keypt mér flíkur frá Henrik Vibskov á hverjum degi þá myndi ég örugglega gera það, en ég get það ekki,“ segir Eyjólfur og hlær við. „Þess vegna þarf ég að finna aðrar leiðir, hugsa flíkurnar út og sjá nýja möguleika - og það finnst mér langskemmtilegast.“

Snemma beygist stílkrókurinn

Að eigin sögn var Eyjólfur býsna ungur að árum þegar honum fór að þykja það skipta máli hvernig hann var til fara, og hverju hann klæddist. „Ef þú spyrðir mömmu mína þá segði hún örugglega að ég hafi verið 4 til 5 ára.“ Eyjólfur brosir meðan hann rifjar upp minninguna. „Ég man eftir einu atviki, þegar fjölskyldan var að fara í eitthvert boð. Ég var síðastur út í bílinn. Ég hef ekki verið meira en fimm ára, en var búinn að fara tvisvar inn aftur og skipta um föt - og laga á mér hárið. Það var alveg krúsíal atriði. Og ég var brjálaður þegar ég kom út í bíl af því ég fann ekki rauðu slaufuna mína. Þannig að, já, ég var mjög ungur þegar þetta fór allt saman að skipta máli fyrir mig. Með árunum þróaðist svo áhuginn og í dag er svo komið að ég gæti vel hugsað mér að vinna við það í framtíðinni.“ Eyjólfur bætir því við að enn þann dag í dag elski hann slaufur, gangi mjög oft með slaufur og síðast en ekki síst eigi hann ógrynni af slaufum.

Eftirlætið í fataskápnum

„Uppáhaldsflíkurnar mínar þessa dagana eru aðsniðnu jakkarnir sem ég var að kaupa mér í TopMan. Aðallega vegna þess að mér finnst ég geta notað þá við svo ótrúlega margt. Ég gæti farið í víðar buxur við þá og að sama skapi valið sparilegar buxur og farið þannig klæddur í brúðkaup. Svo þykir mér ferlega vænt um armböndin mín," segir Gísli og sýnir armbönd sem prýða vinstri úlnliðinn. „Þetta bjó ég til sjálfur, og er vísun í son minn,“ útskýrir Gísli og sýnir armband sem skartar stafaperlum sem mynda nafnið ,GÍSLI‘. „Og þetta hér var ég að fá að gjöf frá vinkonu minni í New York, sem vinaband, og það er frá Thomas Szabo.“ Töffaralegt og mjótt leðurarmband alsett röð af agnarlitlum silfruðum hauskúpum. „Svona fylgihlutir finnast mér skemmtilegir.“ Og af því það er að koma sumar verður Eyjólfur að nefna eitt í viðbót: „Ég er ofsahrifinn af þröngum, stuttum gallastuttbuxum fyrir sumarið. Ég gæti alveg séð mig fyrir mér í sumar í þannig stuttbuxum, í skyrtu og stökum jakkafatajakka. Og með slaufu. Ég myndi hreinlega vilja sofa í þessu!“ jonagnar@mbl.is

Slaufustrákur nálgast

Eyjólfur hefur undanfarið verið að vinna að eigin verkefni tengdu tísku og hillir undir að afraksturinn komi fyrir sjónir áhugasamra. „Ég er búinn að ganga með það í maganum mjög lengi að gera fatalínu. Núna í byrjun júní er ég að opna lífsstíls-bloggsíðu, og hún kemur til með að bera sama nafn og línan sem ég er að vinna að - BowTie Boy, eða Slaufustrákurinn. Slóðin á síðuna verður því bowtieboy.com. Ég er kominn með aðstöðu í stúdíói ásamt vinkonu minni. Ég var þegar búinn að hanna fyrstu slaufuna mína á síðasta ári, og er búinn að útvíkka þá hugsun í litla línu af götuklæðnaði með bóhema-yfirbragði. Útgangspunkturinn er sá að allt eru þetta flíkur sem ég gæti gengið í á hverjum einasta degi.“