[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Guðjóna Hansína fæddist 29. júlí 1916. Hinrika Ásgerður fæddist 29. september 1920. Þær systur fæddust í Bolungarvík og ólust þar upp. Móðir þeirra var Björg Gyðríður Guðjónsdóttir, f. 12. maí 1893 á Strandseljum í Ögurhreppi, d. 19. ágúst 1981. Faðir þeirra var Kristján Ásgeirsson, f. 20. sept. 1887 í Arnardal, Eyrarhreppi, N-Isafjarðarsýslu, d. 7. mars 1926. Hann fórst með vélbátnum Eir 39 ára gamall. Þær systur áttu ekki önnur systkini, en móðir þeirra ól upp Ester Hallgrímsdóttur, f. 29. september 1942. Þær Guðjóna og Ásgerður litu alla tíð á Ester sem systur sína.

Guðjóna fluttist til Reykjavíkur ung að aldri og byrjaði að vinna fyrir sér. Hún fór til Kaupmannahafnar þar sem hún ætlaði að læra hjúkrun, en stríðið varð til þess að breyta öllum hennar fyrirætlunum. Þar með fór hún til Svíþjóðar þar sem hún bjó í einhvern tíma áður en hún kom aftur heim til Íslands. Um tíma rak hún verslunina Iðu á Laugavegi 28, eftir það starfaði hún í Landsbanka Íslands á Laugavegi 77 þar til hún fór á eftirlaun. Síðustu árin dvaldi hún á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund.

Hinrika Ásgerður giftist Guðmundi Stefáni Eðvarðssyni þ. 7. júní 1942. Guðmundur var fæddur 2. mars 1921, d. 14. júní 1998. Þau bjuggu á Ísafirði til ársins 1970, fluttust þá til Reykjavíkur og síðan til Hafnarfjarðar þar sem þau bjuggu síðustu árin. Þau eignuðust sex börn: 1) Stefanía Arndís, f. 24. apríl 1942, maki Pétur Valdimarsson. 2) Gyða Kristjana, f. 4. júlí 1945, maki Leó Svanur Ágústsson. 3) Birna Edda, f. 2. mars 1948. 4) Guðný Erla, f. 19. júní 1950, maki Rikharð Örn Jónsson. 5) Guðrún Hansína, f. 25. ágúst 1954, maki Guðni Kjartan Þorkelsson. 6) Kristján Ríkharð, f. 9. ágúst 1956, maki Guðbjörg Bragadóttir. Barnabörnin eru 16 og barnabarnabörnin 27.

Útför systranna Guðjónu Hansínu og Hinriku Ásgerðar fer fram frá Áskirkju í dag, 1. júní 2012, kl. 13. Jarðsett verður í kirkjugarði Hafnarfjarðar.

Elskuleg tengdamóðir mín og systir hennar létust föstudaginn 25. maí með 25 mínútna millibili. Við fjölskyldan máttum búast við andláti þeirra beggja, en ekki að þær færu saman svo að segja. Við sjáum fyrir okkur að þegar Ása, sú yngri, gaf upp andann, þá hafi hún farið beint yfir til stóru systur sinnar og sagt: „Jæja Gauja mín, nú er nóg komið. Við skulum fara núna.“ Og svo hafa þær sennilega leiðst hlæjandi í sína síðustu för. Því þær gátu yfirleitt hlegið dátt þegar þær hittust. Eða kannski var það Gauja frænka, sem ekki vildi fara fyrr en þær gætu farið saman og því beðið eftir að stund litlu systur kæmi. Þær voru miklar vinkonur þótt lífshlaup þeirra væru ólík og þær í raun mjög ólíkar persónur.

Sú yngri, Ása tengdamóðir mín, kynntist manni sínum nokkuð ung. Þau eignuðust fimm dætur og einn son, sem var að auki yngstur. Ég var svo lánsöm að kynnast syninum og þar með þeim systrum, Ásu og Gauju. Eldri dóttir okkar hjóna fæddist á afmælisdegi Gauju frænku. Gauja hafði alltaf ákveðnar skoðanir og auðvitað hafði hún skoðun á nafni dóttur minnar. Ekki það að hún vildi að ég skírði í höfuðið á sér, heldur vildi hún fá nafn systur sinnar á þetta litla barn. Henni fannst að enginn ætti að skíra eftir sér, það væri ekki fyrir litla stelpu að heita Guðjóna. Þegar okkur hjónum fæddust tvíburar þá fannst okkur tilvalið að skíra þau í höfuðið á þessum sómakonum, Ásu tengdó og Gauju frænku. Þar sem við bjuggum lengi í göngufæri við bæði tengdaforeldra mína og Gauju frænku þá voru þau öll nokkuð reglulegir gestir á heimili okkar og þá sérstaklega Gauja frænka. Hún leit alltaf inn í kaffi þegar hún átti leið hjá. Þegar við fluttum úr hverfinu talaði hún um að við hefðum skilið við hana. Og svo hló hún. Gauja hafði ætlað að læra hjúkrun í Kaupmannahöfn, en stríðið kom í veg fyrir það. Hún flutti yfir til Svíþjóðar þegar Þjóðverjar gerðu innrás í Danmörku. Þar bjó hún í nokkur ár, en flutti svo heim til Íslands aftur. Þegar ég kynntist Gauju vann hún í Landsbankanum á Laugavegi 77.

Ása tengdamóðir mín bjó á Ísafirði með sinni fjölskyldu lengst af, en þegar ég kynntist henni höfðu þau hjónin búið í Reykjavík í nokkur ár. Hún var afskaplega hæg kona og flíkaði ekki sínum skoðunum eða tilfinningum. Hún talaði aldrei illa um nokkurn eða sagði styggðaryrði við aðra, alltaf ljúf og skapgóð. Við vitum að tengdamömmu-brandarar eru vinsælir og afskaplega margir í vinahópi og fjölskyldu í kringum mig hafa sagt misjafnar sögur um tengdamæður. Ég var alla tíð útundan í þeim umræðum þar sem ekki var hægt að kvarta undan minni tengdamóður.

Og nú er komið að kveðjustund. Ég sé þær systur fyrir mér hönd í hönd, hlæjandi og þeim líður vel. Þær áttu gott líf, báðar tvær, voru góðar vinkonur og það er okkur huggun að geta kvatt þær saman.

Guðbjörg Bragadóttir.

Elsku amma Ása. Ég vil þakka þér fyrir allar okkar samverustundir sem voru mér svo yndislegar. Þegar ég var lítil stelpa á Ísafirði þá var svo gaman að koma til þín í Sundstrætið. Alltaf varstu tilbúin með mjólk og meðlæti fyrir stelpuna þína og straukst mér um kollinn og spurðir mig frétta. Þegar við svo fluttum suður eins og þið afi, voru vegalengdirnar aðeins lengri en við áttum alltaf okkar gæðastundir sem ég er svo þakklát fyrir. Þegar þú varst svo komin á Hrafnistu í Hafnarfirði og ég fór með þig á ballið á föstudögum eða færði þér ís úr ísbúðinni, þér þótti ísinn svo góður. Þegar árin liðu og minni þínu fór að hraka sagði ég alltaf við þig: Amma, manstu þegar ég var í bleika kjólnum í brúðkaupinu mínu? þá færðist bros yfir andlit þitt og þú brostir svo fallega.

Elsku amma, það verður skrýtið að koma ekki til þín og lesa með þér jólaguðspjallið á Þorláksmessu og þegar ég spurði þig síðast við lesturinn hvort þú myndir ekki eftir þessu þá sagðir þú jú, að þú hefðir heyrt þessa sögu áður og við hlógum saman. Blessuð sé minning þín, elsku amma, og þakka þér fyrir allt.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Gauja frænka, yndislega fallega frænka mín. Ég vil með fátæklegum orðum mínum þakka þér fyrir samveruna okkar og er margs að minnast. Þegar ég hugsa til þín; hversu glæsileg og flott þú varst alltaf, svo mikil heimskona og unnir listum og fallegum munum. Efstar eru mér í huga stundirnar okkar fyrir jólin þegar við höfðum það fyrir reglu að fara saman út að borða, bara við tvær og þú sagðir mér frá þínu lífi, væntingum og upplifun, hversu mikið þú hefir þráð að kunna að mála og teikna. Þú unnir fallegum listum hvort sem var í hlutum eða á striga. Þú kenndir mér svo margt. Þakka þér fyrir að vera í tilveru minni og vera mér alltaf svona góð.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(Vald. Briem)

Ykkar

Dagný Björk.

Það er okkur bæði ljúft og skylt að fara nokkrum orðum til minningar um Gauju frænku og systur hennar Hinnu, sem leiddust burt úr þessum heimi þann 25. maí sl.

Þær systur voru systkinabörn við mömmu í báðar ættir. Amma Guðlaug og Gyða móðir Gauju og Hinnu voru systur og afi Þorleifur og Kristján faðir þeirra voru bræður.

Eins og mamma, flutti Gauja ung að árum suður á meðan Hinna ílentist fyrir vestan. Af þeim sökum kynntumst við Gauju mun fyrr og betur en Hinnu og því eru fleiri minningar bundnar henni.

Gauja var í okkar orðfæri „Gauja frænka“. Að öllum öðrum ólöstuðum, og var þar mörgum góðum til að dreifa, var hún uppáhalds frænkan. Þar kom margt til en ekki síst hvað hún var einstaklega skemmtileg og hafði svo greinilega gaman af því að umgangast og tala við krakka, fyrir nú utan hvað hún var stórglæsileg. Þegar hugurinn reikar til baka og við minnumst Gauju frænku þá er gleðin í forgrunni; Gauja að gantast við okkur stelpurnar, skemmta sér með mömmu og pabba, gestalykt í húsinu og hennar heimsdömulega yfirbragð svífur yfir vötnunum. En Gauja fór ekki bara léttu leiðina að hjörtum okkar systranna. Til marks um það þá var það hún sem stóð við hlið mömmu á jólunum heima í Björk eftir að pabbi dó skömmu fyrr, og tókst það ómögulega, að bjarga jólastemningunni. Það var ekki í fyrsta skiptið sem Gauja hljóp í skarðið fyrir foreldra okkar á erfiðum tímum. Þegar Þóra dvaldi langdvölum á sjúkrahúsi í Reykjavík sem barn, og mamma og pabbi áttu ekki heimangengt til að heimsækja hana, mætti Gauja í hverri viku mánuðum saman uppá Landspítala. Hennar heimili var okkur alltaf opið og heimsókn til Gauju frænku var fastur dagskrárliður í hvert sinn sem farið var til Reykjavíkur.

Hinnu kynntumst við sem fyrr segir mun síðar og minna en Gauju. Þóra átti því láni að fagna að fá að búa hjá Hinnu og Guðmundi um nokkurra vikna skeið þegar hún var unglingur og þurfti að stunda fótaæfingar í Reykjavík. Mamma leitaði þá til frænku sinnar sem var nýflutt til Reykjavíkur, um húsaskjól fyrir dótturina. Af sinni alkunnu vestfirsku gestrisni og einstakri hjartahlýju, tóku Hinna, Guðmundur og fjölskylda Þóru fagnandi og voru henni undur góð. Fyrir það ber að þakka.

Takk elsku frænkur báðar tvær fyrir samveruna. Við erum ríkari fyrir vikið.

Systurnar frá Björk:

Margrét Sigríður, Helga, Dóróthea, Ásta Björk og Þóra Magnúsdætur.