Bankastjóri Mario Draghi.
Bankastjóri Mario Draghi. — AFP
Lántökukostnaður bandaríska ríkis-ins hefur ekki verið lægri frá því árið 1946.

Lántökukostnaður bandaríska ríkis-ins hefur ekki verið lægri frá því árið 1946. Fjárfestar leita nú í auknum mæli að öruggri höfn í bandarískum, breskum og þýskum ríkisskulda-bréfum á sama tíma og ótti fer vaxandi um að skulda- og bankakreppan á evrusvæðinu muni dýpka enn frekar á komandi mánuðum.

Ávöxtunarkrafan á bandarísk ríkisbréf til tíu ára nam aðeins 1,6% á skuldabréfamörkuðum í gær og hefur ekki mælst lægri frá því í mars 1946, að því er fram kemur í frétt Financial Times. Sama er uppi á teningnum með bresk ríkisskuldabréf, en ávöxtunarkrafan á þau hefur ekki verið lægri frá því í upphafi 18. aldar. Ávöxtunarkrafan á þýsk ríkisskuldabréf til tveggja ára fór ennfremur í 0% í fyrsta sinn í fyrradag.

Greinendur segja þessa þróun endurspegla þá gríðarlegu óvissu sem ríkir á alþjóðlegum fjármálamörkuðum – ekki síst á evrusvæðinu. Fjárfestar eru því aðeins reiðubúnir að lána þeim ríkjum sem þeir telja víst að muni geta staðið í skilum. Ekki þyrfti að koma á óvart ef ávöxtunarkrafan á þýsk og bandarísk ríkisbréf yrði brátt neikvæð og fjárfestar borguðu því í raun með sér á því að lána þeim fjármagn.

Mario Draghi, bankastjóri Evrópska seðlabankans, sagði á ráðstefnu Evrópuþingsins í gær að grunnstoðir evrópska myntbandalagsins væru „ósjálfbærar“. Hann telur nauðsynlegt, eigi að takast að afstýra enn dýpri efnahagskreppu, að ráðast í enn frekari samþættingu á sviði ríkisfjármála og bankastarfsemi. hordur@mbl.is