Gunnlaugur Oddsen Gunnlaugsson (Gulli) fæddist í Reykjavík 17. september 1931. Hann lést á sjúkrahúsi í Stanthorpe í Ástralíu 22. maí 2012.

Foreldrar hans voru Sesselja Sigríður Þorkelsdóttir, f. 2. október 1909, d. 26. september 1950 og Gunnlaugur Oddsen Vilhjálmur Eyjólfsson, f. 14. ágúst 1909, d. 17. febrúar 1951. Systur Gulla voru Dagmar, f. 25. júní 1930, d. 16. apríl 1997, Aðalheiður, f. 3. október 1932, d. 5. júní 2001, Erla, f. 7. mars 1937, Sólveig, f. 29. september 1939.

Gulli flutti um tvítugt til Sandgerðis þar sem hann kynntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Lilju Sæbjörnsdóttur, f. 16. október 1935. Foreldrar hennar voru Sæbjörn Þórarinsson, f. 25. apríl 1886, d. 22. september 1973 og Ásta Laufey Guðmundsdóttir, f. 15. febrúar 1905, d. 20. desember 1973. Börn Gulla og Lilju eru Sædís, f. 26. september 1954, d. 18. janúar 1993, Inga, f. 26. febrúar 1957, stúlka, f. 1958, d. 1958, Erla, f. 14. mars 1960, Gunnlaugur Pálmi, f. 20. apríl 1962.

Gulli flutti með fjölskyldu sína til Ástralíu 1968 og settist þar að til frambúðar. Barnabörnin eru 15 og barnabarnabörnin 18.

Útför Gunnlaugs verður í Stanthorp í Ástralíu í dag, 1. júní 2012, kl. 10.30.

Elskulegur bróðir okkar er látinn í Ástralíu. Gulli bróðir fluttist til Sandgerðis rúmlega tvítugur þar sem hann kynntist konu sinni og bjuggu þau þar í nokkur ár. Eftir að börn þeirra fæddust fluttu þau til Reykjavíkur og vann Gulli ýmis störf. Síðasta starf hans var húsvörður í Hátúninu og þar tóku forlögin yfir. Óskilapóstur hafði legið þar um tíma og þar á meðal var auglýsingabæklingur um kynningarfund fyrir áhugasamt fólk um nýtt líf í Ástralíu. Gulli fór á fundinn og 1968 tók fjölskyldan sig upp og flutti alfarin til Ástralíu. Afkomendur Gulla og Lilju í Ástralíu eru nú 36.

Eftir 21 árs fjarveru komu þau til Íslands til árs dvalar en fjarvera frá börnum og fjölskyldum var þeim erfið og styttu þau dvölina í fjóra mánuði. Þau voru búin að skipuleggja aðra ferð til Íslands nú í sumar og ættingjar hlökkuðu mikið til að hitta þau en ferðin breyttist í mun lengri ferð hjá Gulla við fráfall hans eftir stutt veikindi.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(Vald. Briem)

Við kveðjum elskulegan bróður og móðurbróður með miklum söknuði og hann mun alltaf eiga stóran stað í hjarta okkar. Við sendum Lilju og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur. Biðjum góðan Guð að vaka yfir þeim og vernda.

Erla, Sólveig og

systrabörn.

Látinn er móðurbróðir minn, Gunnlaugur Oddsen Gunnlaugsson, í Stanthorpe í Queensland. Gulli, eins og hann var alltaf kallaður, ólst upp í vesturbænum í Reykjavík en hóf síðar búskap með eiginkonu sinni, Lilju Snæbjörnsdóttur í Sandgerði. Ég man eftir heimili þeirra í Hátúni þar sem þau bjuggu ásamt börnum sínum fjórum, Sædísi, Ingu, Erlu og Gulla Pálma en þau voru öll á svipuðum aldri og við systkinin og því vinsælt að heimsækja þau og alltaf fengum við mjög hlýjar móttökur.

Á árinu 1968 var aflabrestur og gengisfellingar í kjölfarið. Aukið atvinnuleysi varð til þess að margir Íslendingar ákváðu að freista gæfunnar í Ástralíu og þar á meðal Gulli og Lilja. Mér er mjög minnisstæð kveðjustundin, sem var okkur krökkunum erfið, því þrátt fyrir ævintýraljómann af því að þau væru að flytjast til fjarlægrar heimsálfu þá lá það líka í loftinu að það gætu liðið mörg ár þar til endurfundir yrðu.

Samskiptum var haldið við fyrst og fremst með árlegum jólakortum og myndum þar sem mjög dýrt var þá að hringja til Ástralíu. Gulli og Lilja fluttust oft á milli staða í leit að nýjum atvinnutækifærum þannig að það var farið að grínast með það á Íslandi fyrir hver jól hvort að þau væru ekki örugglega komin með nýtt heimilisfang. Það má segja að Gulli hafi verið ævintýramaður í sér, alltaf tilbúinn að prófa eitthvað nýtt. Marga í fjölskyldunni á Íslandi langaði að heimsækja Gulla, Lilju og börnin í Ástralíu en fáir létu verða af því enda um 17 þúsund km vegalengd að ræða. Móðursystir mín, Dagmar, fór þó þrisvar í heimsókn og Erla móðursystir mín einu sinni og tóku þær mikið af myndum á 8 mm filmu sem öll fjölskyldan naut góðs af.

Árið 1989 komu þau Gulli og Lilja í heimsókn til Íslands í boði Aðalheiðar og Georgs, systur og mágs Gulla, en gamla Ísland togaði alltaf í þau. Við komu þeirra til Íslands urðu miklir fagnaðarfundir eftir 21 árs fjarveru frá Íslandi. Ætlun þeirra var að dvelja eitt ár á Íslandi en börnin og barnabörnin í Ástralíu toguðu í þau og héldu þau sátt heim á leið eftir 4 mánaða dvöl – heimahagarnir lágu nú í Ástralíu.

Á síðastliðnu ári varð Gulli áttræður og fengu þau Lilja flugmiða til Íslands í afmælisgjöf frá börnum sínum og barnabörnum. Fjölskyldan á Íslandi var farin að hlakka til endurfundanna nú í sumar en í mars síðastliðnum fengum við þær sorglegu fréttir að Gulli væri orðinn alvarlega veikur. Því miður náði hann ekki að heimsækja sitt gamla föðurland aftur. Eftir 44 ára búsetu Gulla og Lilju í Ástralíu hefur stór ættbogi skotið þar rótum. Vonandi gefst okkur, frænkum og frændum, tækifæri á að kynnast betur í náinni framtíð.

Ég minnist móðurbróður míns sem brosmilds og hlýlegs frænda með stríðnisglampa í augum. Fallinn er frá góður drengur en góðar minningar lifa. Ég og börnin mín, Sóley María og Einar Páll, sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur yfir hálfan hnöttinn til Lilju, Ingu, Erlu, Gulla Pálma og allrar fjölskyldunnar.

Sigríður Einarsdóttir

og fjölskylda.